Dýrasta verkið fór á rúmar 5 milljónir

Jóhann Ágúst Hansen hjá Gallerí Fold.
Jóhann Ágúst Hansen hjá Gallerí Fold. Ljósmynd/Dagmál

Dýrasta verkið sem selt var á uppboðinu hjá Gallerí Fold í kvöld fór á 5,2 milljónir króna. 

„Þar er um að ræða stórt og fallegt verk eftir Þórarin B. Þorláksson sem sýnt hefur verið á listasöfnum alla vega í tvígang,“ segir Jóhann Ágúst Hansen listmunasali og segir athyglisvert að verk naívistana hafi einnig gengið vel.  

„Til dæmis fór lítið verk eftir Stórval [Stefán Jónsson] á yfir 700 þúsund og verk eftir pabba hans [Jón Stefánsson frá Möðrudal] á nærri því 400 þúsund. Kaupverðið á verkinu eftir Stórval var þrisvar sinnum yfir verðmatinu. Þetta eru svona ljósir punktar en á heildina litið má segja að uppboðið hafi gengið upp og niður í kvöld. Það er í takti við hvernig markaðurinn hefur verið á þessu ári því hann hefur verið frekar óstöðugur.“ 

Verk eftir konur seldust vel

Jóhann nefnir að verk eftir konur hafi í nokkrum tilfellum selst vel í kvöld. 

„Verk eftir Karólínu [Lárusdóttur] seldist til að mynda á um þrjár milljónir og þá seldust verk eftir Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur og Nínu Sæmundsson yfir matsverði.“

Á almennum nótum segir Jóhann Ágúst að þrátt fyrir óróleika í efnahagslífinu þá sé greinilegt að margir horfi enn til listaverkakaupa sem fjárfestingarkosts. Listaverkamarkaðurinn sé hvorki allur á niðurleið né uppleið heldur sé eftirspurnin misskipt eftir listamönnum. 

„Landslagsmálverk hafa átt undir högg að sækja á uppboðum á síðustu árum. Landslagsverk eftir Kjarval og fleiri svo við tökum dæmi. Þótt landslagsverkin hafi ekki öll verið hástökkvarar í kvöld þá héldu þau velli ef þannig má að orði komast. Það eru vísbendingar um að þau séu hætt að lækka og þróunin sé kannski að snúast við aftur. Það er bara jákvætt því þessir frumherjar okkar og meistarar munu ekki hverfa af markaðnum. Ég gæti trúað að þeir muni hækka aftur,“ segir Jóhann Ágúst Hansen. 

Þórarinn B. Þorláksson frá Vatnsdal var fyrsti Íslendingurinn sem nam …
Þórarinn B. Þorláksson frá Vatnsdal var fyrsti Íslendingurinn sem nam málaralist erlendis.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka