Settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu í vitnastúku?

Verjendur tveggja sakborninga í Baugsmálinu hafa krafist þess að Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í málinu, beri vitni fyrir dómi, ásamt Helga I. Jónssyni, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur.

Verður málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi sagðist Sigurður Tómas mótmæla kröfu verjendanna. Verður því málflutningur um þetta atriði í réttarsal í dag þar sem tekist verður á um hvort Sigurður Tómas og Helgi muni bera vitni eða ekki.

Það voru þeir Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og Jakob Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, sem kröfðust þessara vitnaleiðslna.

Ef dómurinn telur ástæðu til að Sigurður Tómas og Helgi beri vitni, munu verjendur spyrja þá um samskipti þeirra áður en endurákærur í Baugsmálinu voru gefnar út, og tildrög þess að Pétur Guðgeirsson héraðsdómari var ekki skipaður dómsformaður í þeim hluta Baugsmálsins sem er tilkominn vegna endurákæra í málinu, segir Gestur.

Pétur Guðgeirsson var dómsstjóri í fyrri hluta Baugsmálsins, þar sem ákærðu voru sýknaðir af öllum ákæruliðum, og er því vel inni í málsgögnum, sem eru afar umfangsmikil. Gestur segir að með þessari kröfu sé ekki verið að setja út á skipun Arngríms Ísbergs héraðsdómara sem dómsstjóra í málinu.

Í dag mun héraðsdómur einnig skipa sérfræðinga til að meta tölvupósta, að kröfu verjenda Jóns Ásgeirs, Tryggva og Kristínar Jóhannesdóttur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert