Mikil jarðfræðiþekking og bortækni skila góðum árangri

Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
Framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun hafa gengið eftir áætlun að sögn Eiríks Bragasonar, verkefnisstjóra virkjunarinnar. Dagsetning lykiláfanga er óbreytt og þegar seinni vélin í þessum áfanga fer í gang 1. október næstkomandi verður framkvæmdum lokið við það sem kalla má kjarna Hellisheiðarvirkjunar. Það er miðbygging, stjórnbygging, allar þjónustubyggingar, skiljustöðvar, meginaðveituæðar, vegakerfi og önnur helstu mannvirki. Áframhaldandi stækkun virkjunarinnar verður því auðveld, að sögn Eiríks.

Næsti áfangi Hellisheiðarvirkjunar er 33 MW lágþrýstivél sem nýtir gufuorkuna eftir að hún kemur úr háþrýstihverflunum. Framkvæmdir eru hafnar við byggingu húss fyrir lágþrýstivélina og er stefnt að því að gangsetja hana 15. september 2007. Þessi vél verður ein sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Því næst er gert ráð fyrir tveimur 45 MW vélum sem verða gangsettar árið 2008 og möguleiki er síðan á öðrum tveimur jafnstórum sem yrðu gangsettar árið 2010. Heildar raforkuvinnslugeta Hellisheiðarvirkjunar verður því um 303 MW þegar búið verður að gangsetja allar vélarnar. Til samanburðar má geta þess að vinnslugeta Búrfellsvirkjunar, eftir stækkun og endurbætur, er um 300 MW.

"Til að ná í þessa orku þarf að bora mikið á næstu árum," sagði Eiríkur. "Nú erum við að yfirfara tímaáætlanir fyrir þessar boranir og erum að skoða tillögu um að bora rúmlega 20 háhitaholur á næsta ári á Hellisheiði, Skarðsmýrarfjalli og þeim stöðum sem Orkuveitan er með rannsóknaleyfi. Þeir staðir eru á Hellisheiði, Ölkelduháls og Hverahlíð."

Eiríkur sagði að ef til þess kæmi að reistar yrðu virkjanir á Ölkelduhálsi og í Hverahlíð væri hægt að stýra þeim frá stjórnbyggingu Hellisheiðarvirkjunar. Einnig yrði hægt að samnýta þjónustubyggingu og ýmsa aðra aðstöðu. Á þessu stigi er einungis um rannsóknaboranir að ræða á nýju svæðunum.

Jarðvarminn gjörnýttur

Auk 303 MW af raforku mun Hellisheiðarvirkjun framleiða heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið. Gert er ráð fyrir að árið 2009 skili virkjunin hitaorku sem nemur 133 MW. Ef þetta er lagt saman mun Hellisheiðarvirkjun skila 436 MW orku. Að sögn Eiríks verður sótt ferskvatn í borholur í hrauninu við virkjunina og það síðan hitað upp með jarðgufu, sem þegar hefur knúið raforkuhverfla. Eiríkur sagði að á ákveðnum stöðum í hrauninu væri gríðarlegt vatnsmagn og því engin hætta á vatnsskorti. Vatnið verður flutt til byggða um 100°C heitt undir þrýstingi í niðurgrafinni lögn.

Rúmlega 500 manns vinna við verkið í dag, þar af eru 70% Íslendingar. Eftir gangsetningu seinni vélarinnar í fyrsta áfanga hinn 1. okóber fækkar starfsmönnum í um 100. Þeim fjölgar svo aftur næsta vor og er áætlað að framkvæmdir OR á Hellisheiði verði í hámarki 2010. Þá verða hugsanlega um 1.000 manns að störfum við virkjunina. Um 30 verktakafyrirtæki, þar af þriðjungur erlendir verktakar, eru nú að störfum á Hellisheiði. Stærstu verktakarnir eru Mitsubishi sem smíðar hverflana og Balke Duerr sem smíðar kæliturna. Bæði fyrirtækin eru með íslenska undirverktaka.

Prófanir eru hafnar á ýmsum búnaði virkjunarinnar. Þessa dagana er m.a. verið að prófa stjórnkerfin, sem koma frá Siemens í Þýskalandi. Með kerfinu er hægt að opna og loka lokum á öllu svæðinu úr stjórnstöðinni með því einu að smella þar á tölvumús. Að sögn Eiríks hafa prófanir farið hægt af stað en gengið vel og kerfin virkað eins og til er ætlast.

Hellisheiðarvirkjun er mjög sambærileg við Nesjavallavirkjun í tæknilegri uppbyggingu, að sögn Eiríks. Hún er þó heldur stærri og nýtur tækniframfara sem orðið hafa. Samspil raforku- og heitavatnsframleiðslu veldur því að jarðvarminn er eins vel nýttur og kostur er. Þegar jarðgufan hefur kólnað og þést verður henni dælt til baka um 1 km til 1,6 km djúpar holur í iður jarðar þar sem mestar líkur eru á að vökvinn skili sér aftur inn í háhitakerfi Hengilsins. Þessi þáttur virkjunarinnar hefur verið unninn í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus, að sögn Eiríks. Þetta er talið jákvætt með tilliti til umhverfisáhrifa virkjunarinnar því það kemur í veg fyrir að steinefni í jarðgufunni safnist fyrir á yfirborði jarðar.

"Það sem er að skila mjög góðum árangri hér er annars vegar rannsóknarvinna jarðfræðinga Orkuveitu Reykjavíkur og ÍSOR, sem hefur tekist að byggja upp þrívíddar líkan af Henglinum sem einu heildstæðu jarðhitakerfi. Hins vegar hvað bortæknin hefur þróast mikið og menn eiga auðveldara en áður með að hitta á réttan stað," sagði Eiríkur. Hengilssvæðið er líklega eitt best þekkta svæði landsins neðanjarðar. Þar fléttast saman þekking sem aflað hefur verið með tilraunaborunum víða um svæðið, jarðskjálftarannsóknum og greiningu á loftmyndum. Þessi þekking hefur verið notuð til að draga upp þrívíða tölvulíkanið af Hengilssvæðinu neðanjarðar.

Bortæknin er einnig orðin mjög fullkomin og gerir m.a. kleift að breyta stefnu borsins niðri í jörðinni. Borholurnar á Hengilssvæðinu eru að meðaltali 2 km djúpar, allt frá 1,6 km upp í 2,5 km. Þær eru gjarnan boraðar á ská í gegnum jarðlögin, því með því móti aukast líkurnar á að hitta á lóðréttar sprungur sem gufan leitar í. Þetta tvennt, þekkingin og bortæknin, hafa skilað gríðarmiklum árangri við framkvæmd Hellisheiðarvirkjunar, að sögn Eiríks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert