Össur telur að verkalýðshreyfingin eigi að berjast gegn ofurlaunum

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is

Ísland, sem áður einkenndist af jöfnuðu og stéttleysi, er að verða stéttskiptasta land í Evrópu, að því er segir á vef Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Telur Össur að verkalýðshreyfingin eigi að beita ítökum sínum í stærstu fjárfestum landsins, lífeyrissjóðunum, til að stórfyrirtæki setji sér skýrar reglur sem koma í veg fyrir ofurlaunasamninga en flytja ella fjármagn sitt annað.

„Forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa undanfarið sett fram drengilega og harða gagnrýni á þá staðreynd að stéttskipting – einsog hún speglast í tekjumun þeirra sem hafa hæstar og lægstar tekjur – vex óðfluga hér á landi. Hún er nú með því mesta sem gerist í álfunni. Lægst launaða fólkið í þeirra röðum losar ríflegar hundrað þúsund krónur í mánaðarlaun. Á sama tíma eru hæst launuðu Íslendingarnir með tuttugu milljónir á mánuði. Þessi munur hefur aldrei í Íslandssögunni verið jafn mikill.

Það vill hins vegar svo til, að verkalýðshreyfingin hefur í höndum sínum sterk vopn sem hún getur notað til að ráðast gegn ofurlaunastefnu sterkra fjármálafyrirtækja, sem er á góðri leið með að gera Ísland að eyðileggja stéttleysi Íslendinga.

Lífeyrissjóðirnir eru öflugustu fjárfestingasjóðir landsmanna. Þeir eru meðal stærstu eigenda að bönkum landsins. Þessum sjóðum er stjórnað af forystu verkalýðshreyfingarinnar í samvinnu við forystu atvinnurekenda. Forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa því sterka stöðu til að krefjast þess í nafni lífeyrissjóðanna að fjármálastofnanirnar, sem hafa rutt ofurlaunastefnunni brautina, setji sér skýrar reglur um launagreiðslur, sem koma í veg fyrir ofurlaunasamninga.

Ég blæs á þau rök æðstu stjórnenda banka og fjármálastofnana sem halda fram að ofurlaunasamningarnir séu nauðsynlegir til að halda í einhverja ofursnillinga vegna alþjóðlegrar samkeppni. Það er hrein bábilja, falsrök, sem sett eru fram til að verja það sem ekki er hægt að verja. Samkeppnin um snilldina sem þeir vísa í er einfaldlega ekki til í þeim mæli að hún réttlæti launakjör af þessu tagi.

Umræddir snillingar búa heldur ekki yfir meiri snilld en svo, að þeim hefur ekki tekist að verja hagsmuni eigenda bankanna – þarmeð talinna lífeyrissjóðanna – því bankarnir og fjármálastofnanirnar hafa hríðfallið í verði á markaði. Er það tilefni til að verðlauna menn með tuttugu milljóna mánaðartekjum?

Launagreiðslur til einstakra starfsmanna sem nema hundruðum milljóna á ári kosta eigendur bankanna stórkostlegar upphæðir. Það hlýtur því að vera í beina þágu almennra launamanna, sem eiga lífeyrissjóðina, að stjórnendur þeirra berjist gegn útlátum og kostnaði sem stafa af ofurlaunasamningum innan fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir eiga stóra hluti í.

Atvinnurekendur eiga sömu hagsmuna að gæta. Þeim er að auki mikið kappsmál að draga úr fordæmum af þessu tagi, sem auðvitað hljóta að ýta undir launaskrið í fyrirtækjum þeirra, - og þeir vilja skapa frið á vinnumarkaði.

Forystumenn í verkalýðshreyfingunni og samtökum atvinnurekenda eiga því að hafa sameiginlegt frumkvæði að því að setja lífeyrissjóðunum skýrar reglur um fjárfestingar. Þær reglur eiga að mínu mati að fela í sér að lífeyrissjóðirnir fjárfesti ekki í fyrirtækjum sem ekki hafa innri verklagsreglur sem koma í veg fyrir ofurlaunasamninga. Slíkar reglur eru orðnar nauðsyn.

Fyrir þessu hafa jafnt lífeyrissjóðir og samtök smárra fjárfesta barist erlendis. Fyrir þessu á íslenska verkalýðshreyfingin að berjast. Vilji fjármálastofnanirnar ekki hlíta eðlilegum tilmælum um að setja sér skýrar innri reglur gegn háttsemi af þessu tagi eiga fulltrúar lífeyrissjóðanna – að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar – að beita sér fyrir því að fjármagn lífeyrissjóðanna verði flutt úr þeim," að því er segir í pistli á vef Össurar Skarphéðinssonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert