Fimm vikur í réttarsal?

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

REIKNAÐ er með því að réttarhöldin í síðari hluta Baugsmálsins verði þau langumfangsmestu í Íslandssögunni, og að vitnaleiðslur og málflutningur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur geti tekið um fimm vikur. Við fyrirtöku í málinu í gær var ákveðið, með fyrirvörum, að aðalmeðferð í málinu hefjist 12. febrúar 2007.

Gríðarlegur fjöldi vitna verður leiddur fyrir dóminn, sækjandi hefur þegar lagt fram lista með nöfnum 82 vitna sem hann hyggst kalla fyrir dóminn, og verjendur upplýstu í gær að þeir myndu að líkindum kalla fyrir um 10 vitni til viðbótar.

Voru verjendur tveggja ákærðu, þeir Gestur Jónsson og Jakob Möller, sammála um að þetta yrðu líklega langumfangsmestu réttarhöld sem farið hefðu fram hér á landi. Líklega væru réttarhöldin í Hafskipsmálinu þau umfangsmestu fram til þessa, en þessi hluti Baugsmálsins væri augljóslega margfalt umfangsmeiri.

Um er að ræða þann hluta Baugsmálsins sem varð til eftir að Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í málinu, gaf út endurákæru á hendur þremur einstaklingum í kjölfar þess að Hæstiréttur vísaði frá dómi 32 af 40 ákæruliðum í upphaflega málinu. Ákært var á ný í 19 liðum, en einum þeirra hefur Hæstiréttur vísað frá dómi. Eftir standa 18 ákæruliðir sem teknir verða til efnislegrar meðferðar.

Arngrímur Ísberg, dómari í síðari hluta Baugsmálsins, ákvað í gær að aðalmeðferð í málinu færi fram 12. febrúar nk. Það er þó háð því að Hæstiréttur kveði upp dóm í fyrri hluta Baugsmálsins fyrir þann tíma, en talið er líklegt að sá dómur falli í lok janúar nk. Sagði dómarinn að reiknað væri með því að aðalmeðferðin stæði í um fimm vikur, eða frá 12. febrúar til 16. mars 2007.

Aldrei hefur viðlíka fjöldi vitna verið kallaður fyrir í einu máli, og þarf að skipuleggja vandlega hvenær hvert vitni verður kallað fyrir til að ekki myndist löng biðröð af vitnum fyrir framan sal héraðsdóms, sagði Arngrímur.

Tilkynnt um meðdómendur í desember

Aðalmeðferð í málinu má líklega skipta í þrennt. Í fyrsta lagi verða teknar skýrslur af sakborningunum þremur; Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Tryggva Jónssyni og Jóni Gerald Sullenberger. Í öðru lagi verða teknar skýrslur af vitnum, sem gætu orðið yfir 90 talsins. Að lokum munu svo sækjendur og verjendur flytja málið munnlega fyrir dómi.

Sigurður Tómas, sækjandi í málinu, sagði við fyrirtöku í gær að reikna mætti með því að skýrslutaka af Jóni Ásgeiri fyrir dómi tæki 2-3 daga, en skýrslutökur af Tryggva og Jóni Gerald eitthvað styttri tíma. Því mætti búast við að skýrslutökur af sakborningum tækju um eina viku í réttarsal.

Reiknað er með einni fyrirtöku í málinu áður en aðalmeðferð hefst, og verður hún þann 6. desember nk. Þar verður tilkynnt hverjir meðdómendur í málinu verða, en þegar hefur verið ákveðið að dómurinn verði fjölskipaður. Þá verður einnig farið yfir hvernig undirbúningur aðalmeðferðarinnar gengur hjá sækjanda og verjendum.

Í hnotskurn
» Upphafleg ákæra í Baugsmálinu var gefin út 1. júlí 2005.
» Hæstiréttur vísaði frá 32 ákæruliðum og héraðsdómur sýknaði í því sem eftir stóð. Niðurstöðu Hæstaréttar er beðið.
» Endurákæra vegna frávísunar var gefin út 31. mars 2006. Fyrsta ákærulið þeirrar ákæru var vísað frá dómi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert