Sjóræningjar réðust á og rændu íslensk hjón úti fyrir ströndum Venesúela

Kári Jón Halldórsson og Áslaug Ösp Aðalsteinsdóttir.
Kári Jón Halldórsson og Áslaug Ösp Aðalsteinsdóttir.

Íslensk hjón, þau Kári Jón Halldórsson og Áslaug Ösp Aðalsteinsdóttir, urðu fyrir barðinu á sjóræningjum þar sem þau voru á siglingu á skútu sinni úti fyrir ströndum Venesúela um helgina. Það var aðfaranótt laugardags sem þrír menn með alvæpni réðust um borð í skútu þeirra, höfðu í hótunum og bundu þau saman. Kára og Áslaugu sakaði ekki, en sjóræningjarnir stálu öllu steini léttara og telur Kári að tjónið nemi um 1,5 milljónum króna.

Kári og Áslaug hafa verið á siglingu á skútu sinni, Lady Ann, um heimsins höf undanfarin tvö ár. Þetta mun þó vera í fyrsta skipti sem þau lenda í einhverju af þessu tagi.

Kári segir að þau hafi sett niður akkeri við eyjuna Isla Margarita norðaustur af Venesúela, þar sem þau ætluðu að verja nóttinni.

„Það var svo leiðinlegur öldugangur í akkerislæginu við Poca de Poza að við ákváðum að flytja okkur í akkerislægið við smáþorpið Robledal þar sem við settum niður akkeri í um 600 metra fjarlægð frá smábryggjunni þeirra. Þarna voru engir aðrir seglbátar, en þó nokkuð margir fiskibátar heimamanna voru þarna við akkerisfestar,“ segir Kári.

„Þegar til kom náði ég alls ekki að sofna því svo mikill var veltingurinn á bátnum í öldunni. Þetta endaði með því að ég dreif mig út um miðnætti til að breyta akkerisfestingunni þannig að báturinn myndi snúa upp í ölduna og þannig róa hreyfingar bátsins.“

„Ég var ekki fyrr kominn fram á stafn er þrír menn birtust út úr myrkrinu, þeir komu róandi hljóðlaust upp að Lady Ann og fyrr en varði horfði ég ofan í þrjú byssuhlaup. Tveir mannanna stukku um borð í einni andrá og settu byssuhlaupin undir hökuna á mér. Ég vissi að Áslaug var steinsofandi inni í rúmi og það kom ekki annað til greina en að reyna að vekja hana áður en þeir finndu hana þar. Ég kallaði því á hana og sagði henni hvernig ástatt var. Mennirnir heyrðu mig kalla á íslensku sem þeir skildu ekki og þeir vissu ekki hvaða skipanir ég væri að gefa. Því urðu þeir öllu ákveðnari og hreinlega boruðu byssuhlaupunum í mig þar sem þeir stýrðu mér aftur eftir bátnum,“ segir Kári.

Áslaug vaknaði við köll Kára og lýsir atburðum svo:

„Mér brá alveg rosalega þegar ég fann hvergi bóndann í bælinu og hentist fram allsnakin því hér er alltof heitt til að sofa í náttfötum. Ég var komin fram í eldhús þegar ég sá út og að þar voru í rauninni menn með nef og munn falin sem héldu byssum að Kára,“ segir hún.

„Ég endasentist inn í svefnherbergi þar sem ég reif lak af rúminu til að vefja mig í og hljóp síðan að VHF stöðinni til að kalla á hjálp. Ég náði að kalla tvisvar til þrisvar á hjálp áður en ég fékk byssuhlaup undir hökuna og var skipað á spænsku að hypja mig út til bónda míns.“

„Ég var enn ekki alveg búin að átta mig á hættunni og í stað þess að hlýða hljóp ég inn á klósett, þar sem ég lokaði að mér í von um að fá smá frið til að ná áttum. Hurðin á klósettherberginu dugði ekkert til að stoppa kauða sem var farinn að verða reiður. Ég þorði því ekki annað en að trítla eftir því sem hann stýrði mér með byssunni, ég settist hjá Kára og þar vorum við bundin bak í bak.“

„Næstu tvo tímana sátum við þarna bundin með mann yfir okkur sem öðru hvoru potaði í okkur með byssunni sinni og spurði hvort við ættum virkilega ekki meiri peninga en þeir voru búnir að finna þarna inni. Sem betur fer gáfum við okkur ekki og náðum fyrir einskæra heppni að halda eftir smá peningum, en þeir hreinlega tóku innviði bátsins niður í öreindir. Þeir komu um borð nálægt miðnætti og um hálfþrjú leytið henti einn þeirra út laki sem var sett yfir höfuð okkar.“

„Munnurinn á mér varð hreinlega eins og þerripappír við þetta, ég hef aldrei orðið jafn hrædd á ævinni, því ég var viss um að nú myndu þeir annað hvort skjóta okkur, eða allavega rota okkur svo við myndum ekki byrja að öskra um leið og þeir færu.“

„Sem betur fer voru þeir ekki alveg eins harðsvíraðir og ég óttaðist, því þegar þeir voru sannfærðir um að við ættum hreinlega ekkert athyglisvert eftir, drifu þeir fenginn út í bátinn sinn og réru á braut.“

Þegar Áslaug og Kári höfðu losað sig sáu þau að báturinn hafði verið tæmdur af raftækjum og örðum verðmætum. Þá höfðu ræningjarnir einnig tekið utanborðsmótor úr björgunarbátnum þannig að þau gátu ekki komist í land á honum. Þau sigldu því á skútunni til Porlamar, sem er stærsta borgin á Isla Margarita, en siglingin tók um tíu tíma. Þar gáfu þau lögreglu skýrslu um málið og fengu góð viðbrögð yfirvalda sem rannsaka nú málið.

Kári segir að þau hjón ætli ekki að láta þessa uppákomu slá sig út af laginu heldur muni þau halda áfram að sigla um heimsins höf. Ef ránsfengurinn komi ekki í leitirnar geti þau keypt flest af þeim nauðsynjum sem stolið var. Hann segir því ekkert á dagskránni að koma heim til Íslands í bráð.

Lady Ann, lengst til vinstri.
Lady Ann, lengst til vinstri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert