Eldvörnum á mörgum heimilum verulega ábótavant

Eldvörnum er verulega ábótavant á mörgum heimilum að því er fram kemur í nýrri könnum sem Gallup gerði fyrir Brunamálastofnun og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS). Talsvert vantar upp á að nægilega margir hafi reykskynjara, eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilum sínum og alltof fáir (17,3%) segjast hafa gert neyðaráætlun fyrir heimilið.

Eldvarnaátak LSS hófst í gær þegar slökkviliðsmenn hófu að heimsækja grunnskóla og fræða heimilin um eldvarnir, og er könnunin liður í átakinu. Þar segir að almenningur telji Eldvarnaátakið mikilvægt og beri mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Að jafnaði farast um tveir einstaklingar í eldsvoðum hérlendis á ári hverju. Eldsvoðar valda árlega eignatjóni uppá um einn og hálfan milljarð króna. Reynslan sýnir að líkur á eldsvoðum aukast talsvert á aðventunni vegna mikillar notkunar rafmagns og kertaljósa. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn leggja því áherslu á að allir tileinki sér grunnatriði eldvarna. Könnun Gallup sýnir að nær 99 prósent landsmanna telja Eldvarnaátakið mikilvægt, það er mjög mikilvægt (83,9%) eða frekar mikilvægt (14,7%).

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn njóta mikils trausts

Könnun Gallup leiðir einnig í ljós að almenningur ber mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Nær 99 prósent sögðust bera mikið traust til þeirra. Ánægjugildið í þeirra garð mælist 4,7 af 5 mögulegum en það er hærra en mælst hefur í ímyndarkönnunum Gallup fyrir fyrirtæki og stofnanir til þessa. Þá lýstu um 95 prósent svarenda yfir ánægju með störf stéttarinnar og reyndust flestir mjög ánægðir. Ánægjan mælist nær 98 prósent hjá þeim sem þurft hafa að nota þjónustuna.

Eldvarnabúnað vantar á alltof mörg heimili

Sérfræðingar í eldvörnum leggja mesta áherslu á að fólk setji upp reykskynjara til að tryggja að það verði sem fyrst vart við eld og nái að komast út áður en það er um seinan. Í óvenju tíðum eldsvoðum á heimilum á undanförnum vikum hafa reykskynjarar sannað gildi sitt hvað eftir annað. Samkvæmt könnun Gallup vantar reykskynjara að meðaltali á sex prósent heimila en á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið hærra og hæst er það í Reykjavík, 8,4 prósent. Um þriðjungur hefur aðeins einn reykskynjara en aðrir tvo eða fleiri. Talsvert virðist einnig vanta upp á að fólk fylgi leiðbeiningum um prófun á virkni reykskynjara og viðhaldi þeirra.

Innan við helmingur (42,3%) segist hafa allan lágmarksbúnað sem mælt er með, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Eins og tíðir eldsvoðar á heimilum undanfarið sýna er eldur raunveruleg ógn við líf, heilsu og eignir fólks. Spurt var í könnun Gallup hvort kviknað hefði í hjá viðkomandi á síðustu tíu árum og svöruðu 12,5 prósent því játandi.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gerir átak í eldvörnum meðal innflytjenda

Í Slökkviliðsmanninum, forvarnablaði LSS sem kemur út á morgun, eru leiðbeiningar um eldvarnir í fyrsta sinn birtar á fleiri tungumálum en íslensku. Efnið birtist einnig í blaði Alþjóðahússins, Eins og fólk er flest. Birting efnisins er liður í sérstöku átaki Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) til að koma upplýsingum um grunnatriði eldvarna til innflytjenda og útlendinga sem hingað eru komnir til að starfa um lengri eða skemmri tíma. Átakið er gert í samvinnu við Rauða kross Íslands og Neyðarlínuna, 112.

Ljóst er að talsverð brögð eru að því að útlendingar búi í húsnæði þar sem eldvörnum er ábótavant. SHS hefur því látið þýða efni um grunnatriði eldvarna á sjö erlend tungumál. Átak SHS hefst með birtingu efnisins í áðurnefndum ritum en það verður síðan gefið út í bæklingum og dreift þar sem þess er þörf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert