Halldór naut ekki biðlaunaréttar sem bæjarstjóri á Akureyri

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Skapti

Halldór Jónsson, sem var bæjarstjóri á Akureyri árin 1990 til 1994, segir að í hans starfssamningi hafi ekki verið ákvæði um biðlaun. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, segir á heimasíðu sinni, að réttur til biðlauna sé og hafi verið hluti ráðningasamnings bæjarstjórans á Akureyri í allmörg ár og víst sé að fyrrverandi bæjarstjórar hafi notið biðlauna þegar þeir létu af störfum en slíkur biðsamningur hafi verið fyrst undirritaður á Akureyri fyrir meira en 20 árum.

Halldór var ráðinn bæjarstjóri fyrir 16 árum þegar Sjálfstæðisflokkur og Alþýðubandalag mynduðu meirihluta í bæjarstjórninni. Hann sagði við Fréttavef Morgunblaðsins, að ákvæði um biðlaunarétt hafi ekki verið í starfsamningi hans, hugsanlega vegna þess að hann fékk leyfi frá störfum hjá Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar, þar sem hann er framkvæmdastjóri, til að gegna bæjarstjórastarfinu en Halldór tók við starfi sínu þar aftur þegar kjörtímabilinu lauk.

Talsverð umræða hefur verið um biðlaunarétt Kristjáns Þórs, sem ætlar að láta af embætti í byrjun janúar þar sem hann verður í framboði til Alþingis. Halldór sagðist ekki taka neina afstöðu til réttmætis biðlaunasamninga, vildi aðeins koma því á framfæri sem að honum snéri í málinu og sagðist ekki vita hvort ákvæði um biðlaunarétt hafi verið í starfssamningum annarra bæjarstjóra sem störfuðu á undan honum eða eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert