Spurning um hvort sveitarfélögin eigi að koma meira að málum fátækra

Fjöldi fólkst leitar til Mæðrastyrksnefndar á hverju ári
Fjöldi fólkst leitar til Mæðrastyrksnefndar á hverju ári mbl.is/Ásdís

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir að skýrsla sem birt var nýverið um fátækt á Íslandi sé mjög vel unnin og verði notuð í þeirri endalausu glímu sem íslensk stjórnvöld glíma við, að reyna að bæta hag fólks. En það sé ekki bara í höndum ríkisins að sinna þeim sem verst eru settir í þjóðfélaginu heldur sé það líka hlutverk sveitarfélaganna. Það sé því spurning um hvort félagsmálayfirvöld sveitarfélaganna eigi ekki að koma meira inn á þau svið þar sem ríkið nær ekki til.

Hins vegar hafi ekki verið rætt um sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga en skýrslan og sú umræða sem um hana hefur skapast gefi tilefni til þess að það verði skoðað frekar hvernig nærumhverfið eigi að standa að málum. Þetta kom fram á fundi fjármálaráðherra með fjölmiðlum í dag.

Alls 4.634 börn í 2.977 fjölskyldum teljast hafa búið við fátækt á árinu 2004 þegar miðað er við aðferðafræði Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Barnafjölskyldur teljast hafa verið rúmlega 41 þúsund árið 2004 og er hlutfall fátæktar þannig 6,6%.

Að sögn Árna er skýrslan mjög áhugaverð fyrir íslensk stjórnvöld og vel unnið plagg sem verður að halda til haga. Árni segir að könnunin mæli í sjálfu sér ekki fátækt heldur tekjudreifingu í þjóðfélaginu. Í þessu tilviki sé verið að mæla tekjudreifingu hjá fjölskyldum sem eru með börn. „Það sem mér fyrst og fremst athyglisvert er breytingin á milli ára hjá okkur. Þegar við berum okkur saman við nágrannaþjóðirnar þá erum við í svipaðri stöðu og hinar Norðurlandaþjóðirnar en aðrar þjóðir sem eru með í könnun OECD eru með meiri tekjudreifingu en Ísland og hin Norðurlöndin eru með."

Árni segir annað athyglisvert í niðurstöðum skýrslunnar. Þar sem tekjudreifingin er minnst, það er þar sem fjölskyldur með börn falla fæstar inn í þá skilgreiningu að teljast fátæk, þar er atvinnuþátttaka kvenna mest.

Að sögn fjármálaráðherra er ekki hægt að alhæfa neitt í þessum málum enda ekki miklar líkur á að mörg þeirra barna sem teljast fátæk árið 2004 séu í þeim hópi í næstu könnun þar sem yngri foreldrar eru með lægri tekjur heldur en eldri foreldrar. Þessar fjölskyldur séu ekki að festast í fátækt heldur eru á leiðinni upp sem er í samræmi við tekjustrúktúr í þjóðfélaginu. Launatekjur hækka með aldri en lækka síðan aftur þegar fólk er komið á efri ár.

Eins og fram hefur komið þá er skýrslan frá árinu 2004 og segir Árni að heilmikið hafi gerst frá þeim tíma til að mynda hvað varðar barnabætur og skatta. Jafnfram sé mikill hraði í þjóðfélaginu og laun hækkað og kaupmáttur launa aukist. Það verði því spennandi að sjá hvernig mál hafi þróast þegar næsta skýrsla verður birt.

Árni vísaði á fundinum til þeirra breytinga sem verða á sköttum og greiðslum frá Tryggingastofnun á næsta ári og segir að stjórnvöld séu að eru að vinna í því að bæta aðstæður þeirra sem verst hafa það.

„Við erum endalaust að glíma við að bæta hag fólks. Skýrslan segir okkur þá sögu að við erum að ná nokkuð góðum árangri miðað við margar aðrar þjóðir," segir fjármálaráðherra.

Ísland er þó í hópi þeirra landa innan OECD þar sem fátækt barna mælist hvað minnst, en þetta kemur fram í skýrslunni um fátækt barna, sem forsætisráðherra lagði fram á Alþingi síðastliðinn föstudag að beiðni Samfylkingarinnar.

Veigamestu skýringarþættir mældrar fátæktar barna eru aldur foreldra, hjúskaparstaða og tímabundnar aðstæður. Þannig mældist hlutfallslega mest fátækt hjá einstæðum foreldrum innan við tvítugt; hlutfall fátækra barnafjölskyldna af öllum barnafjölskyldum er um 2/3 þegar foreldrarnir eru innan við tvítugt. Hjá foreldrum eldri en 30 ára er hlutfallið um 4%. Fátæktin varir hins vegar í stuttan tíma hjá flestum, en í skýrslunni segir að sérstök athugun hafi leitt í ljós að ¾ fátækra fjölskyldna árið 2000 voru það ekki lengur árið 2004.

Í skýrslunni kemur fram að ef fátækt er mæld miðað við tekjur einvörðungu teljast 12,7% barna hafa búið við fátækt árið 2004. Hlutfallið lækki hins vegar um 6,1 prósentustig fyrir áhrif skattkerfisins og þá sérstaklega vegna barna- og vaxtabóta. Þegar tekið er tillit til námslána frá LÍN lækki hlutfallið í 6,3%. Meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra lækki hlutfallið enn frekar en ekki liggi fyrir fullnægjandi tölulegar upplýsingar um þessar fjárhæðir.

Samkvæmt aðferðafræði OECD miðast fátæktarmörkin við ráðstöfunartekjur heimilanna, eða 50% af miðtekjum, en það eru þær tekjur þar sem jafnmargir eru með hærri tekjur og lægri. Þetta þýðir að ávallt mælast einhverjir fátækir, sama hversu vel tekst til um þjóðfélagsþróunina. Fjöldi barna sem teljast undir fátæktarmörkum sveiflast því nokkuð í samræmi við þróun fátæktarmarkanna. Þannig voru fátæktarmörkin nær 50% hærri að raunvirði árið 2004 en 10 árum áður. Álíka hátt hlutfall barna telst hafa búið við fátækt á árunum 1994 og 2004, en árið 1999 var hlutfallið í kringum 4,8%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert