LSH sýknað af kröfu um ógildingu uppsagnar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Landspítala-háskólasjúkrahús af kröfu starfsmanns Landspítala-háskólasjúkrahúss um að ógilt verði með dómi ákvörðun spítalans að segja sér upp störfum í september sl. LSH var jafnframt sýknaður af kröfu mannsins um að viðurkennt yrði með dómi, að uppsögnin hafi verið ólögmæt.

Maðurinn byggði málssóknina á því að honum hafi verið sagt upp störfum vegna trúarbragða sinna og kynþáttar. Hann sé verið eini starfs­maður sjúkrahússins af arabískum uppruna og eini músliminn sem starfi hjá upplýsinga­tæknisviði LSH. Hann sé eini tölvu­menntaði starfsmaður sviðsins sem sagt hafi verið upp störfum í nafni nýinnleiddra skipulags­breytinga. Önnur sjónarmið hefðu ótvírætt legið til grundvallar uppsögninni en þau er lúti að skipu­lags­breytingunum.

Sjúkrahúsið mótmælti því, að ákvörðun um að leggja starf mannsins niður ætti á nokkurn hátt rætur að rekja til uppruna hans, heilsufars eða þess að hann sé múslimi og formaður Félags múslima á Íslandi. Ákvörðunin sé vegna skipulags­breytinga sem meðal annars væri ætlað að auka skilvirkni. Greinargerð, sem lýsi fyrirhugðum skipulagsbreytingum og endur­skoðun á stefnumótun, sé ítarleg og afar vönduð og byggi á mikilli vinnu við endurskipulagningu með hagræðingu og skilvirkni að markmiði.

Héraðsdómur segir, að ekkert bendi til að trúarbrögð eða uppruni starfsmannsins hafi haft áhrif á matið, sem stjórnendur LSJ hafi óhjákvæmilega þurft að leggja á það hvort hann héldi starfi sínu í kjölfar skipulagsbreytinganna eða hvort honum yrði sagt upp starfinu eins og raunin varð. Engin rök séu talin standa til þess að álykta að maðurinn hafi ekki notið jafnræðis við mat sjúkrahússins á því hvernig verkefnum skyldi sinnt samkvæmt hinu nýja skipulagi og þegar ákvörðun var tekin um uppsögn­ina. Féllst dómurinn því ekki á að jafnræðisreglan hafi verið brotin í um­ræddu tilviki og ekki á að uppsögnin hafi verið ólögmæt og að hana beri að fella úr gildi af þeim sökum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert