Steinunn Valdís vildi bíða þess að ríkið yfirtæki Landsvirkjun

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi, sem situr í stjórn Landsvirkjunar fyrir hönd Reykjavíkur, lét bóka á stjórnarfundi fyrirtækisins í dag, að hún teldi eðlilegt að viljayfirlýsing um raforkusölu til álverksmiðju Alcan í Straumsvík biði nýrrar stjórnar en aðeins hálfur mánuður sé þar til ríkið yfirtaki fyrirtækið.

Í bóku Steinunnar Valdísar segir, að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi að auki boðað atkvæðagreiðslu um stækkun álversins í Straumsvík og í því ljósi telji hún eðlilegt að bíða ákvörðunar um virkjanir í Neðri-Þjórsá þar til niðurstöður atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir.

Kennslustund í karlrembu, hroka og „dissi"
Steinunn Valdís fjallar um stjórnarfundinn á heimasíðu sinni í dag, og segir, að þetta hafi verið síðasti fundur núverandi stjórnar Landsvirkjunar. Segist Steinunn Valdís hafa tekið sæti í stjórninni að loknum kosningum í vor og strax orðið vör við þann mjög svo sérstaka móral sem þarna virðist landlægur. Það hafi veirð svolítið eins og að vera Valsari í búningsklefa KR.

„Á fundinum gerðist það hins vegar að félagarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (borgarstjóri) og Kristján Þór Júlíusson (bæjarstjóri á Akureyri) sameinuðust um sannkallaða kennslustund í karlrembu, hroka og „dissi” sem endaði með því að Álfheiður Ingadóttir, fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórninni, gekk af fundi. Litlu munaði að ég fylgdi fordæmi hennar. Miklar umræður urðu síðan á fundinum um framgöngu þeirra tveggja sem var að mínu mati fyrir neðan allar hellur. Stjórnarmenn eru ekki fulltrúar sjálfra sín, heldur almennings og er rétturinn til að tjá sig í stjórninni óskoraður líkt og í öðrum lýðræðislegum stofnunum. Þessari staðreynd virtist gjörsamlega stolið úr kolli þeirra kumpána. Undir stælunum rifjuðust óneitanlega upp í huga mér allir þeir klukkutímar sem ég „sat undir” ræðum Vilhjálms í borgarstjórn þegar hann var í minnihluta. Oft fannst mér hann bara vera að bulla út í loftið. En það kom málinu akkúrat ekkert við, heldur er það lágmark að fólk sýni kurteisi þegar hin lýðræðislega umræða fer fram á formlegum vettvangi. Menn geta síðan bara bloggað úr sér pirringinn, eins og sumir gera gjarnan. En fundurinn í morgun minnti mig á þá tíma þegar ég var um tvítugt og sat heita hasarfundi í stúdentapólitíkinni þar sem flest var leyfilegt. Vilhjálmur og Kristján Þór eru gott betur en tvítugir. Það held ég að flestir viti – þótt þeir hafi kannski bara gleymt því sjálfir í morgun," segir Steinunn Valdís síðan.

Heimasíða Steinunnar Valdísar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert