Rúmeni í farbanni reyndi að komast úr landi á fölsuðu vegabréfi

Rúmeni, sem varð uppvís að því að koma ólöglegum afritunarbúnaði …
Rúmeni, sem varð uppvís að því að koma ólöglegum afritunarbúnaði á hraðbanka, reyndi að komast úr landi á fölsuðu vegabréfi. mbl.is/Júlíus

Rúmeni, sem hlaut nýlega fangelsisdóm fyrir að koma fyrir afritunarbúnaði á hraðbanka og sætti farbanni á meðan hann tók sér áfrýjunarfrest, var handtekinn á Reykjavíkurflugvelli á miðvikudag af starfsmönnum útlendingadeildar lögreglunnar í Reykjavík þar sem hann ætlaði að kaupa sér farmiða til Færeyja.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var maðurinn með falsað ítalskt vegabréf á nafni annars útlendings. Vegabréfið mun hann hafa keypt af samlanda sínum hér á landi, sem áður virðist hafa notað þetta sama vegabréf til að fá íslenska kennitölu. Eftir yfirheyrslur hjá lögreglunni féllst maðurinn á að una dómi og var færður til afplánunar.

Rúmeninn fékk ásamt félaga sínum fangelsisdóm fyrir að reyna að svíkja út fjármuni með fölsuðum greiðslukortum og fyrir að setja leynilegan afritunarbúnað, falskt lyklaborð og skynjara fyrir segulrönd bankakorta, á þrjá hraðbanka í því skyni að afrita númer banka- og greiðslukortareikninga viðskiptavina og aðgangsnúmer að reikningunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert