Skrifað undir þjónustusamning við Flugstoðir

Útlit er fyrir að um 60 flugumferðarstjórar hætti störfum um …
Útlit er fyrir að um 60 flugumferðarstjórar hætti störfum um áramótin. mbl.is/Brynjar Gauti

Skrifað verður í dag undir þjónustusamning milli samgönguráðuneytisins og opinbera hlutafélagsins Flugstoða vegna verkefna Flugstoða á sviði flugvallarekstrar og flugleiðsöguþjónustu. Flugstoðir taka við verkefnum Flugmálastjórnar Íslands um áramótin.

Tæplega 60 flugumferðarstjórar, sem nú starfa hjá Flugmálastjórn, hafa ekki viljað skrifa undir samning við Flugstoðir og hætta því væntanlega störfum um áramótin. Flugmálastjórn hefur unnið áætlun til að bregðast við þessu og fullyrðir að flugöryggi innanlands muni ekki skerðist þann 1. janúar.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra segir hins vegar ljóst, að viðbúnaðaráætlunin muni hafa veruleg áhrif á flug um íslenska flugstjórnarsvæðið og yfirgnæfandi líkur séu á að flug muni raskast verulega, bæði innanlands og til og frá landinu.

Í yfirlýsingu frá félaginu segir, að hvorki Flugstoðir né yfirvöld samgöngumála hafi haft hátt um óhagkvæmni og viðbótarkostnað sem neyðaráætlunin kallar óhjákvæmilega yfir flugrekendur. Í áætluninni sé gert ráð fyrir að flugvélar fljúgi um íslenska flugstjórnarsvæðið á föstum ferlum í fyrirfram ákveðnum flughæðum. Einnig verði flugumferð á svæðinu takmörkuð verulega. Þetta hafi í för með sér að flugvélar geti ekki flogið hagkvæmustu flugleið og tekin sé upp „flæðisstýring“ sem hefur í för með sér seinkanir flugvéla þar sem takmarka þurfi flugumferð á svæðinu á hverjum tíma.

Segja flugumferðarstjórar, að varlega megi áætla að kostnaður flugfélaga af viðbúnaðaráætlun Flugstoða verði yfir 10 milljónir króna á dag í janúarmánuði og þá sé ekki meðtalinn kostnaður vegna seinkunar flugs, röskunar á áætlunum og tengiflugum o.fl. Alls verði aukakostnaður í janúar því um 315 milljónir og allt árið 2007 um 4,6 milljarðar króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert