Safngestir fengu 53 tonn að láni á árinu

Amtsbókasafnið á Akureyri.
Amtsbókasafnið á Akureyri.

Lánþegar Amtsbókasafnsins á Akureyri fengu að láni 194.748 gögn árið 2006 sem samsvarar því að hver Akureyringur hafi fengið 11,58 safngögn að láni á árinu, eða um það bil eitt á mánuði. Samanlagður þungi þessara gagna er um 53,3 tonn.

Útlán safnsins jukust verulega á síðasta ári, sem er mikill viðsnúningur frá því sem verið hefur.

Frá þessu greinir Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður á Akureyri.

Útlán á síðasta ári voru um tólf af hundraði fleiri en 2005, en það ár fjölgaði þeim um fjögur prósent, en 2003 fækkaði þeim um fimm af hundraði.

Sem fyrr eru bækur vinsælastar meðal lánþega safnsins, eða um 75% þess sem lánað var út á árinu. Næst koma tímarit og myndbönd.

Ef gögnunum sem fengin voru að láni á árinu væri staflað hverju ofan á annað yrði til turn sem væri 2.726 metra hár, segir Hólmkell. Til samanburðar megi geta þess að Kerling, hæsta fjall Norðurlands, sé 1.536 metra hátt og Súlutindur sem gnæfir yfir Akureyri er 1.144 metra hár. Samanlögð hæð þessara fjalla sé því 46 metrum lægri en þessi ímyndaði gagnaturn Amtsbókasafnsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert