50 hafa gefið blóð 100 sinnum eða oftar

Sigurður Eggert Ingason ásamt starfsfólki Blóðbankans.
Sigurður Eggert Ingason ásamt starfsfólki Blóðbankans.

Í byrjun árs fór fjöldi þeirra, sem hefur gefið blóð 100 sinnum eða oftar, í 50 manns. Samkvæmt upplýsingum frá Blóðbankanum er Sigurður Eggert Ingason yngstur í hópi þeirra sem hefur gefið blóð oftar en 100 sinnum. Hann hóf að gefa blóð 17 ára og hefur gert það reglulega í 28 ár. Þegar hann kom í 100. skiptið voru með í för bróðir hans, sem var að gefa í 50. skiptið, og sonur sem var að gefa blóð í fyrsta skipti.

Sigurður segir að það hafi verið umfjöllun um Blóðbankann í sjónvarpi sem hreyfði við honum þegar hann var 17 ára að aldri. „Þessi umfjöllun hafði þau áhrif á mig að ég hef upp frá því gefið blóð á þriggja mánaða fresti undanfarin 28 ár. Vinnuveitendur mínir í gegnum tíðina hafa sýnt mér skilning þegar ég þarf að fara í Blóðbankann enda er um þjóðþrifamál að ræða. Þá er mikill kostur við Blóðbankann að ekki þarf að panta tíma til þess að gefa blóð, maður mætir bara og leggst á bekkinn,” segir Sigurður í tilkynningu frá Blóðbankanum.

Milli 9-10 þúsund gefa blóð hjá Blóðbankanum á hverju ári. Blóðbankinn þarf um 16.000 blóðgjafir á ári til að mæta þörfum samfélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert