Konur í friðargæslunni sendar til Afganistan, Balkanskaga og Líberíu

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði á fundi um öryggis- og varnarmál í Háskóla Íslands í dag, að áform séu uppi um að senda konur til starfa við friðargæslu til Afganistan, á Balkanskaga og í Líberíu. Nú eru konur um fjórðungur friðargæsluliða en með þessu verður hlutfallið komið í um þriðjung.

„Friðargæslan er ekki verkfæri til þess að búa til á Íslandi hóp fólks sem hlotið hefur þjálfun í vopnaburði með það fyrir augum að stofna her eða vísi að her.

Verkefni friðargæslunnar eru fyrst og fremst þróunar og mannúðarmál hvort sem þau eru á vegum Sameinuðu þjóðanna, NATO eða annarra.

Hvað varðar þau verkefni vil ég árétta að markmið mitt er að jöfn hlutföll kynja náist meðal íslenskra friðargæsluliða að því marki sem mögulegt er. Árið 2004 voru um 14 af hundraði friðargæsluliða okkar konur en í dag eru konur um fjórðungur friðargæsluliða sem starfa á vegum Íslands. Þá eru áform um að senda konur til slíkra starfa til Afganistan, á Balkanskaga og í Líberíu og mun þetta hlutfall þá vera komið í þriðjung. En betur má ef duga skal og ég við munum áfram vinna að því að jafna hlutföll kynjanna í starfsemi Íslensku friðargæslunnar," sagði Valgerður á fundinum.

Valgerður sagði í svari við fyrirspurn, að vel miðaði í viðræðum við aðrar þjóðir um að Íslendingar fái sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar væru Íslendingar að kljást við Tyrki og Austurríkismenn um sætin tvö og því ekki ekkert öruggt í þeim efnum. Valgerður sagði að þótt Íslendingar fái ekki sætið hafi margt lærst því ferli, sem nú stendur yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert