Lögreglan hyggst setja upp eftirlitsmyndavélar til þess að fylgjast með veggjakroturum

Benedikt H. Benediktsson lögreglufulltrúi og Þorvaldur Sigmarsson varðstjóri sjást hér …
Benedikt H. Benediktsson lögreglufulltrúi og Þorvaldur Sigmarsson varðstjóri sjást hér þrífa veggjakrotið af útidyrahurðinni fyrr í dag. mbl.is/Júlíus

Krotað var á útidyrahurð lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í nótt og er þetta í þriðja sinn á innan við þremur vikum sem óprúttnir aðilar krota á lögreglustöðina. Búið er að þrífa krotið en að sögn Benedikts Benediktssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, ætlar lögreglan að koma upp eftirlitsmyndavélakerfi við húsið sem hingað til hefur fengið að standa óáreitt.

Benedikt segir þetta ekki hafa verið vandamál áður. „Þetta verður vaktað núna,“ sagði hann í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins og bætti því við að þeir sem ætli sér að krota á húsið verði gómaðir. Aðspurður segist hann trúa því að um sömu aðila sé að ræða, sem hafi krotað á húsið öll þrjú skiptin.

„Besta forvörnin varðandi veggjakrot er að mála strax yfir eða þrífa krotið í burtu jafnóðum og það kemur,“ segir Benedikt og bætir því við að þetta sé mikil sýningarþörf hjá þeim einstaklingum sem standa á bak við veggjakrotið.

Fyrir næstu helgi ætlar lögreglan að vera búin að koma upp eftirlitsmyndavélum við húsið svo hún geti betur fylgst með mannaferðum við húsið að næturlagi. „Við náum þeim núna,“ sagði Benedikt að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert