Dæmdir í fangelsi fyrir líkamsárás og frelsissviptingu

Héraðsdómur Reykjaness hefur fundið þrjá 18 og 19 ára gamla karlmenn seka um að hafa þvingað karlmann niður í farangursgeymslu bíls, aka síðan upp í Heiðmörk og misþyrma manninum þar. Einn maðurinn var dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið, annar í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 skilorðsbundið og sá þriðji í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Mennirnir voru dæmdir til að greiða manninum sem þeir réðust á samtals tæpar 450 þúsund krónur í bætur auk málskostnaðar.

Fram kemur í ákæru, að mennirnir tveir, sem þyngstu dómana hlutu, hafi dregið sparkað ítrekað í manninn, sem ráðist var á, og stappaðu á kviði hans og brjóstkassa. Maðurinn hlaut m.a. lífshættulega innvortis blæðingu auk sára og mars víða um líkamann. Þriðji maðurinn var hins vegar aðeins fundinn sekur um hlutdeild í frelsissviptingarbroti en hann tók ekki þátt í árásinni.

Í dómnum kemur fram, að upphaf málsins verði rakið til ágreinings eins af árásarmönnunum við vin mannsins, sem ráðist var á. Sá sem fyrir árásinni varð hafi verið dreginn inn í þá deilu með fjarstæðukenndum hætti og algerlega að ófyrirsynju.

Fram kemur að einn af þremenningunum hlaut á síðasta ári skilorðsbundinn dóm fyrir aðra líkamsárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert