Segir ekkert óeðlilegt við beiðni um upplýsingar frá skattrannsóknarstjóra

Saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hafnar því að nokkuð hafi verið óeðlilegt við að skattrannsóknarstjóri svaraði beiðni og veitti umbeðnar upplýsingar um afgreiðslu á meintum skattsvikabrotum nokkurra einstaklinga tengdum Baugi Group.

Fram kemur í tilkynningu frá Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota, að tilefni beiðninnar um upplýsingar hafi einkum verið að leiða í ljós hvort tilefni væri til að hefja rannsókn opinbers máls vegna persónulegra skattskila einstaklings sem hafði samkvæmt upplýsingum í skýrslu skattrannsóknarstjóra dregið undan u.þ.b. 94 milljónir króna af launatekjum sem greiddar voru honum árin 1998–2000, auk tekna að fjárhæð á þriðja tug milljóna sem greiddar voru einkahlutafélagi hans.

Fram hefur komið í fréttum Ríkisútvarpsins, að átt sé við Óskar Magnússon, sem um tíma var stjórnarformaður Baugs. Máli hans var vísað til yfirskattanefndar. Í tilkynningu ríkislögregluembættisins kemur fram, að málum annnars yfirmanns Baugs Group hafi verið vísað til ríkislögreglustjóraembættisins.

Í bréfi sem ríkissaksóknari skrifaði til skattrannsóknastjóra segir m.a., að þegar eftirlitsaðili kæri ákveðna þætti máls til lögreglu eða ákæruvalds en haldi öðrum af sömu rót sé afar mikilvægt að ákæruvaldið fái upplýsingar um þá þætti sem eftirlitsaðilinn haldi eftir til afgreiðslu og um afgreiðslu þeirra, ekki síst í þágu samræmis og jafnræðis.

Tilkynning ríkislögreglustjóra er eftirfarandi:

    Í gær og dag hefur verið fréttaflutningur í fjölmiðlum um samskipti embætta Ríkislögreglustjórans og Skattrannsóknarstjóra ríkisins, þar sem vitnað hefur verið til bréfaskrifta embættanna, sem áttu sér stað seinnipart síðastliðins árs, í tengslum við rannsókn á meintum skattalagabrotum nokkurra nafngreindra aðila sem í opinberri umræðu hafa verið kenndir við Baug. Umræddar bréfaskriftir áttu sér stað í tengslum við öflun Ríkislögreglustjórans á upplýsingum um afgreiðslu á meintum skattsvikabrotum nokkurra einstaklinga sem tengdust framangreindri rannsókn lögreglu. Hefur í fréttaflutningi verið vísað til og tekin upp ummæli í bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins til Ríkislögreglustjórans dags. 14. desember 2006.

    Ríkislögreglustjórinn vill að framangreindu tilefni upplýsa eftirfarandi.

    Í tengslum við rannsókn lögreglu á meintum hegningarlagabrotum nokkurra manna tengdum Baugi Group hf. sem hófst 28. ágúst 2002, vaknaði grunur um stórfelld skattalagabrot sakborninga í því máli og annarra tiltekinna einstaklinga sem gengdu stjórnunarstöðum hjá nefndu félagi og félögum þeim tengdum. Með bréfi Ríkislögreglustjórans dags. 17. september 2003 voru Skattrannsóknarstjóra sendar upplýsingar og gögn vegna grunsemda um að tilteknir stjórnendur Baugs Group hf., einstaklingar og félög þeim tengd hefðu brotið gegn lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og bókhaldslögum. Upplýsingar þessar voru sendar til þess að Skattrannsóknarstjóri gæti hafið rannsókn á meintum skattalagabrotum og var þess jafnframt óskað að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans fengi tækifæri til að fylgjast með framvindu málsins hjá embætti Skattrannsóknarstjóra.

    Með bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins dags. 12. nóvember 2004 tilkynnti Skattrannsóknarstjóri að hann hefði lokið rannsókn sinni og kærði meint brot fjögurra einstaklinga vegna skattalagabrota í tengslum við rekstur þriggja félaga. Í kærubréfinu sagði meðal annars:

    „Þáðu æðstu yfirmenn og tilteknir starfsmenn Baugs Group hf. starfstengdar greiðslur að fjárhæð samtals kr. 273.271.687, sem ekki var réttilega gerð grein fyrir í bókhaldi og launauppgjöf félagsins til skattayfirvalda; ýmist þannig að alfarið var vanrækt að gera grein fyrir greiðslunum, það gert ranglega eða gert löngu eftir að greiðslurnar höfðu átt sér stað.”

    Í skýrslu Skattrannsóknarstjóra ríkisins um skattskil Baugs Group hf. sem fylgdi kærubréfi embættisins er framangreind fjárhæð sundurgreind á tilgreinda 9 einstaklinga. Fyrirliggjandi var að einn þessara einstaklinga hafði Skattarannsóknarstjóri kært til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjórans vegna grunsemda um að hann hafi vantalið persónulegar tekjur sínar að fjárhæð u.þ.b. 85 milljónir króna auk þess að hafa verið kærður vegna ábyrgðar á meintum skattalagabrotum þeirra þriggja félaga sem í hlut áttu tekjuárin 1998 – 2002. Eins og að framan greinir hafði Ríkislögreglustjórinn upplýsingar um fjárhæðir meintra vantalinna tekna flestra framangreindra 9 einstaklinga og félaga þegar málinu var vísað til Skattrannsóknarstjóra 17. september 2003, þar á meðal voru upplýsingar sem gáfu tilefni til að ætla að tiltekinn yfirmaður hefði þegið laun og launatengdar greiðslur að fjáðhæð u.þ.b. 94 milljónir króna án þess að greiða af þeim tekjum tekjuskatt og úrsvar lögum samkvæmt. Aðrir af hinum 7 einstaklingum sem nefndir voru í skýrslu Skattrannsóknarstjóra höfðu vantalið lægri fjárhæðir.

    Í ljósi fyrirliggjandi gagna þótti eðlilegt að afla upplýsinga frá Skattrannsóknarstjóra um hvort og hvernig málum umræddra 8 einstaklinga, sem höfðu ekki verið kærðir til lögreglu, hefði verið lokið í skattkerfinu. Mögulegar leiðir til að ljúka málum þar sem einstaklingar vantelja tekjuskatts og útsvarsstofna sína voru á þessum tíma, í fyrsta lagi að skattstjóri láta sitja við endurákvörðun skattstofna eftir atvikum með álagningu 25% álags á þá, sbr. 108. laga nr. 90, 2003 um tekjuskatt og eignarskatt, í öðru lagi með því að senda mál viðkomandi, með hans samþykki, í refsimeðferð hjá Yfirskattanefnd sem getur lagt á sektir samkvæmt 109. gr framangreinda laga sem nema að lágmarki tvöfaldri þeirri fjáhæð sem undan er dreginn og hámarki tífaldri og í þriðja lagi með því að meint brot fái refsimeðferð með hefðbundunum hætti að lokinni lögreglurannsókn með útgáfu ákæru. Í refsimáli reynir á hvort meint brot verði talin stórfelld þannig að auk þess að teljast varða sektum samkvæmt 109. gr. framangreindra laga, geti þau varðað allt að 6 ára fangelsi samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Yfirskattanefnd getur ekki dæmt mann í fangelsi né liggur vararefsing við ef álagðar sektir nefndarinnar eru ekki greiddar, eins og raun er á þegar mál eru lögð fyrir dómstól með ákæru. Samkvæmt þessu er refsimeðferð hjá dómstólum sem einungis getur átt sér stað eftir rannsókn lögreglu með útgáfu ákæru, meira íþyngjandi fyrir sakborning og er þeim úrræðum almennt eingöngu beitt í alvarlegri málum sem talin eru geta varðað við 262. gr. almennra hegningarlaga. Dómafordæmi eru fyrir því að brot tengd vanskilum opinberra gjalda sem ná 3 – 4 milljón króna marki séu talin meiriháttar og við þeim liggi fangelsisrefsing.

    Óþarfi þykir að rekja frekar aðdragandann að því bréfi Skattrannsóknarstjóra sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlaumræðu og dagsett er 14. desember 2006, en þó er rétt að árétta að Ríkissaksóknara var með bréfum embættis Ríkislögreglustjórans dags. 4. og 11. desember 2006, gerð grein fyrir málinu. Ríkissaksóknari ritaði Skattrannsóknarstjóra bréf dags. 28. desember 2006 þar sem hann segir meðal annars:

    „ ... vil ég árétta að ég hef lýst því viðhorfi að ákæruvaldinu sé rétt að bíða eftir kæru eftirlitsaðila sem hefur eftirlit með framkvæmd tiltekinna laga og jafnframt víðtæka heimild til að rannsaka ætluð refsiverð brot á lögunum og ráðstafa máli að rannsókn lokinni nema sérstakt tilefni gefist til aðgerða ákæruvalds eða lögreglu án kæru frá eftirlitsaðilanum. Tel ég fyrirkomulagið, sem hér er lýst, líklegt til að tryggja samræmi og jafnræði í meðferð mála.

    Þegar eftirlitsaðili kærir ákveðna þætti máls til lögreglu eða ákæruvalds en heldur öðrum af sömu rót er afar mikilvægt að ákæruvaldið fái upplýsingar um þá þætti sem eftirlitsaðilinn heldur eftir til afgreiðslu og um afgreiðslu þeirra, ekki síst í þágu samræmis og jafnræðis og grundvallarreglunnar um ne bis in idem. Í þessum tilvikum sýnist mér eðlilegt, jafnvel sjálfsagt, að eftirlitsaðilinn leiti samráðs við ákæruvaldið um skiptingu málsins, þ.e.a.s. hvaða þættir þess verði afgreiddir hjá eftirlitsaðilanum og hverjir í réttarkerfinu m.a. til að tryggja að mál manns eða aðila verði afgreitt í einu lagi.

    Með skattyfirvöld og sérstaklega Skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem eftirlitsaðila með framkvæmd skattalaga í huga, lýsi ég því að ég tel eðlilegt og rétt að skattayfirvöld veiti ákæruvaldinu, að gefnu tilefni og þegar réttmæt ástæða er til, upplýsingar og viðhlítandi gögn um hvernig tiltekin brot á skattalögum hafi verið afgreidd í skattkerfinu eða hvernig stefnt sé að afgreiðslu þeirra, en ekki einungis um að þau hafi verið afgreidd þar eða verði afgreidd þar.

    Vafalaust verður litið svo á að ákæruvaldinu sé skylt að leita upplýsinga um afgreiðslu máls eða ákveðinna þátta máls hjá skattayfirvöldum þegar gögn, sem ákæruvaldið hefur að mestu eða öllu leyti fengið frá þeim, gefa sterklega til kynna að einhver hafi framið alvarlegt brot á skattalögum, sem kunni að varða við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, án þess að sá hafi beinlínis verið kærður. Við slíkar kringumstæður getur jafnframt verið mikilvægt fyrir ákæruvaldið að eiga þess kost, í þágu samræmis og jafnræðis, að afstýra því að mál eða þáttur máls sem á heima í réttarkerfinu verði afgreiddur í skattkerfinu. Að endingu vill ég taka fram að í mínum huga er lítill efi um að dómstólar myndu með úrskurði leggja fyrir skattyfirvöld að veita ákæruvaldinu aðgang að slíkum upplýsingum ef krafist yrði, sbr. 4. mgr. 49. gr. og c. lið 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga og dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 471/1994 til hliðsjónar.„

    Í bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins sem nefnt er að framan og dagsett er 14. desember 2006 rekur hann í löngu máli röksemdir sem hann telur standa í vegi fyrir því að Ríkislögreglustjóranum verði afhentar umbeðnar upplýsingar og gögn. Meginefni bréfsins sem stutt er tilvísun í álitsgerð lagaprófessors, sem virðist hafa verið aflað sérstaklega í þessu skyni, lýtur að því að rökstyðja þá niðurstöðu að ákæruvald og lögregla hafi ekki heimildir til að framfylgja málum vegna skattalagabrota fyrir dómi án kæru frá Skattrannsóknarstjóra. Vekur furðu sú ályktun, eða fullyrðing sem sett er þar fram, um að til standi að höfða refsimál gegn þeim 8 einstaklingum sem nefndir eru í bréfi Ríkislögreglustjórans frá 28. ágúst 2006. Brot flestra þessara 8 einstaklinga gefa ekki tilefni til þess að þeir sæti opinberri rannsókn enda er um lægri fjárhæðir að ræða í flestum tilfellum en svo að talist geti varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Ríkislögreglustjórinn er sammála niðurstöðu Skattrannsóknarstjóra um að ekki verði höfðað opinbert mál gegn mönnum sem sætt hafa sektarmeðferð hjá Yfirskattanefnd eða sektarmeðferð hjá Skattrannsóknarstjóra enda stríði slíkt gegn reglunni um ne bis in idem 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994, sem kveður á um að sama manni verði ekki refsað tvisvar fyrir sömu brot, né mál höfðað gegn honum aftur vegna sakarefnis sem fengið hefur endanlega úrlausn áður. Vandséð er hvers vegna Skattrannsóknarstjóri telur sig þurfa að útskýra reglur um ne bis in idem enda er það ákæruvalds að meta það hvort tilefni sé til útgáfu ákæru eða ekki í einstökum tilfellum. Ljóst má vera að það er nauðsynlegt fyrir málið í heild að fyrir liggi upplýsingar um afgreiðslu skattkerfisins á málum þessara 8 einstaklinga.

    Undir framangreinda reglu um ne bis in idem fellur að áliti Ríkislögreglustjórans ekki sú staða þegar mál hafa ekki fengið afgreiðslu í skattkerfinu né þegar meðferð þess hefur verið hætt án sektarmeðferðar. Um forræði ákæruvalds á málum sem þessum hefur verið fjallað í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/1994, þar sem skýrt kemur fram að valdheimildir Ríkissaksóknara séu ekki takmarkaðar við mál vegna skattalagabrota sem kærð hafa verið af Skattrannsóknarstjóra.

    Eins og rakið er hér að framan var tilefni umræddrar beiðni um upplýsingar einkum að leiða í ljós hvort tilefni væri til að hefja rannsókn opinbers máls vegna persónulegra skattskila þess einstaklings sem nefndur er að framan og hafði samkvæmt upplýsingum í skýrslu skattrannsóknarstjóra dregið undan u.þ.b. 94 milljónir króna af launatekjum sem greiddar voru honu árin 1998 – 2000, auk tekna að fjárhæð á þriðja tug milljóna sem greiddar voru einkahlutafélagi hans. Athygli vakti að annar einstaklingur hafði verið kærður til lögreglu með framgreindri kæru Skattrannsóknarstjóra vegna brota sem talin voru framin í starfi hans hjá sama félagi, fyrir að vantelja laun sín sem voru að lægri fjárhæð. Auk þess er það varla vafi á að dómstólar myndu telja umrædd brot stórfelld í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga þar sem heildarfjárhæð undandreginna skattstofna nam á annað hundrað milljónum króna, og því á forræði ákæruvalds að fylgja eftir með ákæru ef sakir teldust sannaðar. Reyndar hefur eftirgrenslan Ríkislögreglustjórans leitt í ljós að mál umrædds einstaklings var lagt fyrir yfirskattanefnd með bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins dags. 9. nóvember 2006 eða u.þ.b. tveimur árum eftir að rannsókn málsins lauk hjá Skattrannsóknarstjóra. Yfirskattanefnd hefur svo vitað sé ekki lokið meðferð málsins.

    Með vísan til framangreinds er því hafnað að nokkuð hafi verið óeðlilegt við að Skattrannsóknarstjóri svaraði umræddri beiðni og veitti umbeðnar upplýsingar um afgreiðslu á málum þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert