Leggja til frjálsan aðgang fræðimanna að gögnum úr kalda stríðinu

Nefnd sem skipuð var til að fjalla um aðgang að gögnum úr kalda stríðinu leggur til að fræðimenn fái frjálsan aðgang að gögnunum, en megi þó ekki fjalla um viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá fái þeir, sem minnst er á í gögnunum, ótakmarkaðan aðgang að því sem sagt er um þá sjálfa. Segir nefndin, að ef farið verði að tillögum hennar fái almenningur aðgang um 95% þeirra gagna, sem til eru um öryggismál á tímabilinu 1949-1968.

Þá leggur nefndin til, að stofnað verði sérstak öryggismálasafn hjá Þjóðskjalasafni.

Formaður nefndarinnar var Páll Hreinsson lagaprófessor. Hann kynnti forseta Alþingis og formönnum þingflokka niðurstöður nefndarinnar í dag.

Almenningur fær takmarkaðan aðgang að gögnunum, en aðgangur fræðimanna verður ótakmarkaður, en þeir mega þó ekki fjalla um persónulegar upplýsingar nema að fengnu leyfi þeirra er upplýsingarnar varða, eða eftir að upplýsingarnar eru orðnar áttatíu ára gamlar.

Á fundi með fréttamönnum, þar sem skýrsla nefndarinnar var kynnt, kom fram að lítið væri af gögnum um hleranir á tímum kalda stríðsins. Umboð nefndarinnar hefði ekki tekið til einstakra hlerana en til að rannsaka hvaða tegundir af gögnum væri um að ræða, þá talaði nefndin við 10 manns, sem komu að þessum hlerunum. Þessir menn störfuðu hjá Útlendingaftirlitinu og Póst- og símamálastofnun og sáu um að tengja hlerunarbúnað.

Margir í þessum hópi eru orðnir rosknir og báru fyrir sig minnisleysi. Nefndin tekur fram, að aðgerðirnar hafi verið á fárra vitorði og flestir þeir sem hefðu getað skýrt málið í heild sinni, séu látnir.

Skýrt var tekið fram, að ávallt hefði þurft dómsúrskurð til að framkvæma hlerun og á þessum árum sem um ræðir, 1949-1968, hafi ekki verið hægt að hlera án atbeina Pósts og síma.

Svo virðist sem þessar hleranir hafi ekki verið teknar upp á band og mjög lítið um þær skráð. Gögnum var síðan flestum eytt árið 1976.

Nefndin leggur til, að almenningur fái aðgang að öllum gögnum um þetta tímabil nema viðkvæmum gögnum um einkalíf manna. Leggur hún til, að Þjóðskjalasafnið hafi samband við þá menn, sem fjallað er um með þeim hætti til að kanna hvort þeir vilji veita aðgang að þeim upplýsingum.

Nefndin leggur til, að fræðimaður verði skilgreindur þannig, að hann vinni að gildu rannsóknarverkefni og geti sýnt fram á þörf fyrir aðgang að þessum skjölum. Í öðru lagi vill nefndin skilgreina fræðimann þannig, að um sé að ræða fólk, sem hafi birt að minnsta kosti eina ritgerð á sviði hug- eða félagsvísinda á viðurkenndum vettvangi.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert