Sá brennandi bát við Ísland á mynd á Google Earth

Myndin sem Andre Müller sá af reyknum undan Reykjanesi.
Myndin sem Andre Müller sá af reyknum undan Reykjanesi.

Bandaríska dagblaðið Baltimore Sun skrifar í dag um þá möguleika, sem forritið Google Earth veitir. Tekur blaðið m.a. dæmi af ungum þýskum háskólastúdent, sem í júlí árið 2005 var að skoða gervihnattamyndir frá DigitalGlobe með forritinu og sýndist hann sjá reyk yfir sjónum skammt undan Reykjanesi. Þegar hann skoðaði myndina betur sá hann glitta í þrjá báta við reykinn.

Andre Müller, sem býr í Achen í Þýskalandi, merkti staðinn og lét vita af þessu á spjallvef áhugamanna um Google Earth.

„Hvað eru þessi skip að gera þarna og hvers vegna er svona mikill reykur," skrifaði Müller. Aðrir skrifborðslandakortaleynilögreglumenn hrósuðu Müller fyrir skarpskyggnina og hófu að leita skýringa á þessum leyndardómi.

Níu mínútum síðar kom fyrsta svarið. „Þetta lítur ekki vel út," og bent var á skip sem sást á myndinni og virtist vera að hraða sér á staðinn þaðan sem reykinn lagði. Annað skip virtist vera á leið í land.

Á næstu dögum komu fleiri svör og einn komst að raun um, að myndin hafði verið tekin nærri ári fyrr, eða 11. ágúst 2004.

Müller taldi nú að hann myndi aldrei komast að hvað gerðist. „Ég hefði aldrei getað komist að raun um hvað ég sá hjálparlaust. En í heimsþorpinu eru alltaf einhverjir, einhversstaðar, sem tala íslensku og vita hvar á að leita," hefur blaðið eftir honum.

16. ágúst 2005 birtist færsla á samskiptavef Google Earth frá einhverjum, sem kallaði sig solskin, og þar sem bent var á tengil á íslenska frétt af skipsbrunanum. Þar kom fram, að eldur hefði kviknað í smábátnum Eyrarröst KE-25. Einn maður var um borð en honum var bjargað um borð í nálægan bát. Ensk þýðing á fréttinni birtist nokkru síðar á vefnum.

Í nóvember 2005 sá Agnar Júlíusson, sem var skipstjóri á björgunarskipi sem sigldi á staðinn, samræðurnar á vefnum og lýsti björgunaraðgerðunum nánar.

„Þetta eru raunveruleg leynilögreglustörf að komast að því hvað er að gerast," hefur Baltimore Sun eftir Frank Taylor, sem stýrir bloggvef Google Earth. Það er nauðsynlegt að vera tengdur samfélagi milljóna manna áður en hægt er að upplýsa mál eins og þetta."

Grein Baltimore Sun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert