Yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri dragast

Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson í dómssal.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson í dómssal. mbl.is/ÞÖK

Yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group, hafa dregist mjög á langinn í Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómhaldinu lauk nú upp úr klukkan 17:40 en átti að ljúka klukkan 16 samkvæmt dagskrá. Þá er ljóst að ekki tekst að ljúka yfirheyrslunum yfir Jóni Ásgeiri á morgun en upphaflega stóð til að þeim lyki um hádegið.

Ástæðan fyrir þessari töf er sú, að spurningar Sigurðar Tómasar Magnússonar, setts saksóknara, hafa tekið mun lengri tíma en áætlað var. Gerði Gestur Jónsson, verjandi, Jóns Ásgeirs, ítrekað athugasemdir við spurningar Sigurðar Tómasar og sagði þær vera víðsfjarri ákæruefninu.

Í dag var Jón Ásgeir spurður um ákæruliði 10, 11, 12, 13 og 17. Jón Ásgeir neitaði í öllum tilfellum sök eins og hann hefur ávallt gert í málinu. Þessir ákæruliðir snúast einkum um bókhaldsbrot en þeir Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, eru ákærðir fyrir að hafa fegrað bókhald Baugs og látið líta út fyrir að fjárhagsstaða fyrirtækisins hafi verið betri en hún í raun var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert