Tryggva sagt að staða hans myndi breytast yrði hann samvinnuþýður

Tryggvi Jónsson og Gestur Jónsson ræðast við í réttarsalnum. Jakob …
Tryggvi Jónsson og Gestur Jónsson ræðast við í réttarsalnum. Jakob R. Möller stendur við borðið. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirheyrslum er nú lokið yfir Tryggva Jónssyni, fyrrum aðstoðarforstjóra Baugs Group, í Baugsmálinu svonefnda í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fram kom við yfirheyrslurnar í dag, að Tryggvi fékk þau boð frá starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, að staða hans í málinu kynni að breytast ef hann yrði samvinnuþýður og skýrði satt og rétt frá.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, spurði Tryggva hvort lögreglan hefði boðið honum eitthvað samkomulag þegar rannsókn málsins stóð yfir, og svaraði Tryggvi, að honum hefði verið sagt, að hann væri í raun aukaleikari í málinu staða hans kynni að breytast ef hann skýrði satt og rétt frá atvikum.

Síðar í yfirheyrslunum kom fram, að í desember 2002 hafði Arnar Jensson, þáverandi starfsmaður efnahagsbrotadeildar, haft samband við Andra Árnason, þáverandi lögmann Tryggva, og sagt honum að þar á bæ vildu menn fyrst og fremst ná Jóni Ásgeiri. Sagði Tryggvi aðspurður að ef hann hefði orðið við ósk Arnars myndi staða hans breytast úr sakborningi í vitni.

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, sagðist eftir þinghaldið ekki geta sagt til um hvort Tryggva hafi verið boðin vitnastaða, en ef svo hafi verið er það ekki samkvæmt „leikreglunum“.

„Mér heyrðist [Tryggvi] nú bara vera að draga þær ályktanir, ekki að honum hafi verið lofað eða slíkt verið gefið í skyn. Hins vegar ef menn segja satt og rétt frá þá verður staða þeirra miklu betri. Samkvæmt almennum hegningarlögum er það refsilækkunarástæða,“ segir Sigurður Tómas.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram í fyrramálið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá hefst yfirheyrsla yfir Jóni Gerald Sullenberger og einnig stendur til að ljúka yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeiri eftir hádegið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert