Baugsmálið: Fleiri vitni kölluð til skýrslutöku í héraðsdómi

Vitnaleiðslur í Baugsmálinu héldu áfram í dag. Meðal þeirra sem voru kvaddir til skýrslutöku voru Jóhanna Guðmundsdóttir, eiginkona Jóns Geralds Sullenbergers, sem er einn hinna ákærðu í málinu, og Guðfinna Bjarnardóttir, sem er fyrrverandi stjórnarmaður í Baugi. Settur saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, spurði Guðfinnu m.a. út lánveitingar Baugs til fjárfestingarfélagsins Gaums og hvernig staðið hefði verið að ákvörðunartökum í félaginu. Jóhanna var hinsvegar spurð ítarlega út í skemmtibátana Viking I, Viking II og Thee Viking.

Guðfinna játaði því að hún vissi að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, Jón Ásgeir Jóhannessonar, forstjóri Baugs, og Tryggvi Jónsson, aðstoðarforstjóri félagsins, hittust reglulega til þess að fara yfir ýmis mál. Þetta hafi verið með vitund stjórnar Baugs. Hún sagði að aðeins hefði verið gert ráð fyrir því að meiriháttar mál kæmu fyrir stjórnina.

Þá var hún m.a. spurð að því hvernig starfsreglur félagsins hefðu verið háttaðar. Guðfinna bar því við að þær hefðu breyst á tímabilinu, enda félagið að stækka. Aðspurð sagði hún m.a. að fjárheimildir hefðu verið rýmkaðar.

Guðfinna bar oft við minnisleysi, eða sagðist ekki kannast við málið, þegar saksóknari spurði hana út í ýmsa þætti er vörðuðu félagið, t.d. hvort fjárhæðir, sem færðar höfðu verið frá Baugi á reikninga sem voru í eigu Fjárfars, Gaums, Jóhannesar Jónssonar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Kristínar Jóhannesdóttur, hefðu komið inn á borð stjórnarinnar.

Jón Ásgeir vildi ekki að fólk vissi að hann ætti skemmtibát

Jóhanna Guðmundsdóttir var ítarlega spurð út í skemmtibátana Viking I, Viking II og Thee Viking. Fram kom í máli hennar að Jón Ásgeir og Jón Gerald Sullenberger hefðu fjárfest saman í Viking I í kjölfar þess þegar Jón Ásgeir fór að venja komur sínar til Flórída. Hún segir Jóhannes Jónsson hafa komið meira við sögu hvað varðar Viking II.

Aðspurð sagði hún Viking I hafa verið skráðan á nafn Jóns Geralds, þar sem báturinn hafi verið keyptur í Bandaríkjunum og lán tekið fyrir honum í bandarískum banka. Í máli hennar kom jafnframt fram að Jón Ásgeir hefði ekki viljað að það spyrðist út að hann ætti slíkan bát. Hann hefði sagt að slíkt myndi koma sér illa.

Þá kom fram að Jón Ásgeir og Jón Gerald hefðu átt sinn helming hvor í bátunum. Eignarhlutfallið hafi haldist þannig einnig þegar Jóhannes fór að sýna bátnum áhuga.

Jóhanna segir Jón Ásgeir hafa notað bátana mjög mikið en þriðja bátinn, Thee Viking, sem jafnframt er stærsti báturinn, mest.

Varðandi aðdragandann að kaupunum á Thee Viking sagði Jóhanna að rekja mætti hann til þess að Jóhannes var farinn að venja komur sínar til Flórída. Hann hefði viljað eignast stærri bát. Hún benti hinsvegar á að Jón Gerald hefði greint þeim feðgum, Jóhannesi og Jóni Ásgeiri, frá því að hann hefði ekki efni á stærri bát, auk þess sem á þessum tíma hafi farið að halla undir fæti hjá Nordica, fyrirtæki Jóns Geralds.

Auk Guðfinnu og Jóhönnu voru þau Unnur Sigurðardóttir, fyrrum starfsmaður Baugs, og Hans Kristian Hustad, stjórnarmaður í Baugi, kölluð í skýrslutöku fyrir hádegi í dag.

Eftir hádegi mun Kristín Jóhannesdóttir mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur til að bera vitni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert