Krefjast aukinnar þjónustu við fórnarlömb slæmrar ríkisstyrktrar stofnanavistunar

Stjórn Geðhjálpar hefur sent ríkisstjórninni erindi, þar sem farið er fram á aukna þjónustu við fórnarlömb slæmrar ríkisstyrktrar stofnanavistunar og meðferðarstarfs. Segir stjórnin, að íslenska ríkið skuldi því fólki sem þarna eigi í hlut, allan þann faglega stuðning sem best geti nýst og völ sé á í landinu.

Í erindi stjórnar Geðhjálpar kemur fram, að til samtakanna hafi leitað einstaklingar, sem segist hafa mátt sæta harðræði, ofbeldi, og/eða kynferðislegri misnotkun meðan á stofnanavistun þeirra á ábyrgð hins opinbera stóð. Sé þá sérstaklega átt við Byrgið í Grímsnesi og drengjaheimilið í Breiðavík.

„Með yfirlýsingum m.a. forsætisráðherra 12. febrúar s.l. og einnig félagsmálaráðherra voru sérstök fyrirheit gefin um aðstoð til fórnarlamba umræddra vistunar- og meðferðaraðila og var frá því greint opinberlega að komið yrði á fót sérstöku teymi fagfólks á geðsviði á Landsspítala. Nú hefur komið í ljós að þessi þjónusta hefur aðeins nýst hluta þess hóps sem um ræðir. Geðhjálp gerir alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina og telur að samhæfa hefði þurft mun betur aðgerðir af hálfu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis frá byrjun. Einnig lýsir Geðhjálp því sjónarmiði sínu að rétt sé við þessar aðstæður, að hið opinbera hafi frumkvæði að því að hafa milliliðalaust samband við fórnarlömb hins meinta ofbeldis í stað þess að beina fólki á geðsvið LSH við Hringbraut," segir í erindinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert