Gjafafé til hágæslu afhent á Barnaspítala Hringsins

Gefendur komu í dag á Barnaspítala Hringsins og afhentu næsta …
Gefendur komu í dag á Barnaspítala Hringsins og afhentu næsta hluta gjafafjárins,15 milljónir króna.

Barnaspítali Hringsins fékk á síðasta ári að gjöf alls 300 milljónir króna til styrktar reksturs hágæslueiningar fyrir inniliggjandi börn. Gefendur eru Jóhannes Jónsson kaupmaður og börn hans, þau Kristín Jóhannesdóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.

Barnaspítalanum hafa verið afhentar 30 milljónir króna af gjafafénu til verkefnisins. Eftirstöðvar verða greiddar út fjórum sinnum á ári, 15 milljónir króna hverju sinni, þ.e. 60 milljónir árlega í alls 5 ár.

Að sögn LSH hefur gjafaféð verið notað til kaupa á tækjabúnaði og þjálfunar starfsfólks til starfa við hágæslueininguna og þannig unnið að uppbyggingu og skipulagi slíkrar einingar á spítalanum. Því starfi verði haldið áfram.

Hágæslueining Barnaspítalans er staðsett á barnadeild 22E. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar deildarinnar hafa fengið fræðslu og þjálfun varðandi hjúkrunarmeðferð barna sem þarfnast hágæslu. Þessi þjónusta er viðbót í starfsemi Barnaspítala Hringsins og eykur enn frekar öryggi veikustu barnanna.

Vaktafyrirkomulagi lækna hefur verið breytt til reynslu til þess að auka viðveru sérfræðinga í húsinu á bundnum vöktum, með það fyrir augum að stuðla að bættu öryggi inniliggjandi sjúklinga hverju sinni. Segir í tilkynningu frá LSH, að greinileg þörf sé fyrir þessa þjónustu á Barnaspítala Hringsins en undanfarna mánuði hafi 10 börn verið vistuð á hágæslu nokkra daga í senn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert