Fundum Alþingis frestað fram á sumar

Össur Skarphéðinsson afhendir Sólveigu Pétursdóttur blómvönd í lok þingfundar í …
Össur Skarphéðinsson afhendir Sólveigu Pétursdóttur blómvönd í lok þingfundar í nótt. mbl.is/Sverrir

Fundum Alþingis var frestað um klukkan hálf eitt í nótt en gert er ráð fyrr að þingið komi saman á ný í sumar eftir alþingiskosningar. Fyrr í kvöld varð á fimmta tug frumvarpa að lögum. Þar á meðal var frumvarp um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga þar sem m.a. er kveðið á um að alvarlegustu kynferðisbrot gegn börnum fyrnist ekki.

Þingmenn úr öllum flokkum fögnuðu þeirri niðurstöðu. Sagði Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, til að mynda, að það væri allt of sjaldan, sem takist að mynda þverpólitíska samstöðu á Alþingi um mikilvæg mannréttindamál og önnur réttindamál en þessi niðurstaða væri mikilvægur sigur fyrir mannréttindabaráttuna.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sagði í lok þingfundar í nótt, að á þessu þingi hefðu 114 frumvörp orðið að lögum og 29 þingsályktanir verið samþykktar. Sólveig sagði að þegar hún tók við embætti hefði hún látið í ljós vilja til að endurskoða þingsköp Alþingis en ekki hefði náðst samstaða um jafn víðtæka endurskoðun og hún hefði viljað. Nýs þings biði að taka ákvarðanir um frekari breytingar, svo sem á ræðutíma, þingnefndum og starfstíma Alþingis.

Þá kom fram hjá Sólveigu, að forsætisnefnd þingsins hafi samþykkt að óska eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir Alþingisreitinn með það í huga að fyrir liggi hvernig uppbyggingu á reitnum verður hagað þegar hafist verður handa við byggingu skrifstofuhúsnæðis á lóðum Alþingis við Vonarstræti og Tjarnargötu.

Sagði Sólveig, að jafnframt fælist í breyttu deiliskipulagi að húsið Skjaldbreið við Kirkjustræti verði tekið niður en framhlið þess endurbyggð og að húsið við Vonarstæti 12 verði flutt og sett við hlið Skjaldbreiðar.

Þá sagði Sólveig, að fyrirhugað væri að ljúka utanhússviðgerðum á Alþingishúsinu í vor og sumar.

Sólveig sagði að útlit væri fyrir að mikil endurnýjun yrði á þingmönnum eftir alþingiskosningarnar í maí. Venjulega væri um fjórðungur þingmanna nýr í upphafi hvers þings en nú yrðu nýir þingmenn fyrirsjáanlega fleiri. Nefndi hún nokkra þingmenn, sem ekki sækjast eftir endurkjöri, þar á meðal Rannveigu Guðmundsdóttur, Sigríði Önnu Þórðardóttur, Jón Kristjánsson, Halldór Blöndal og Margréti Frímannsdóttur. Þá sagðist hún sjálf myndu hætta á þingi eftir 16 ára starf þar.

Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, þakkaði Sólveigu samstarfið fyrir hönd þingmanna og færði henni blómvönd.

Sæunn Stefánsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Siv Friðleifsdóttir eftir að þingi …
Sæunn Stefánsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Siv Friðleifsdóttir eftir að þingi var slitið í nótt. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert