Fiskvinnsla boðuð í Bíldudal

Á fundi um atvinnu- og skipulagsmál í Bíldudal í vikunni kynnti Sigurður Viggósson, framkvæmdarstjóri Odda ehf. á Patreksfirði, áform um rekstur fiskvinnslu á Bíldudal. Hafa fyrirtækin Oddi og Þórsberg ehf. á Tálknafirði ákveðið að hefja rekstur fiskvinnslu á Bíldudal undir nafninu Stapar ehf.

Stapar voru stofnaðir 1989 til að kaupa togarann Sigurey BA frá Patreksfirði. Fyrirtækið hefur nú verið virkjað að nýju og þegar fest kaup á frystihúsinu á Bíldudal. Framkvæmdir við lagfæringu eru hafnar og er gert ráð fyrir að vinnsla geti hafist í lok apríl.

Áformað er að unnið verði úr um 1000 til 1200 tonnum hráefnis og að um 10 manns fá vinnu við vinnsluna. Hráefnisöflun verður í höndum skipa Odda og Þórsbergs en einnig verði samið við heimamenn um hráefnisöflun.

Í máli Sigurðar kom fram að eingöngu verði unnið í ferskar afurðir og unnið verði náið með einum kaupanda afurða erlendis í því sambandi. Nú þegar hefur verið ráðið í tvær stöður hjá Stöpum ehf., Gísli Matthíasson verður vélgæslumaður og Lára Þorkelsdóttir verkstjóri en strax eftir helgi verður auglýst eftir fleira starfsfólki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert