Ferðafélag Íslands kaupir Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi

Séð yfir Fimmvörðuháls frá Mýrdalsjökli
Séð yfir Fimmvörðuháls frá Mýrdalsjökli Mynd/Jónas Erlendsson

Ferðafélag Íslands hefur keypt Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi af Flugbjörgunarsveitinni í Skógum. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir ætlunin sé að endurnýja skálann og bæta aðstöðu fyrir göngumenn á hálsinum. Þar með eiga Útivist og FÍ sitthvorn skálann á Fimmvörðuhálsi sem tengir saman Skóga og Þórsmörk og er ein vinsælasta gönguleið á landinu.

Baldvinsskáli var reistur á Fimmvörðuhálsi 1974 og er hann nefndur í höfuðið á Baldvini Sigurðssyni sem vann ötullega að byggingu skálans ásamt félögum sínum í Flugbjörgunarsveitinni að Skógum. Baldvin og félagar hans voru frumkvöðlar í björgunarmálum Austur-Eyfellinga og reistu skálann sem skjól fyrir ferðamenn á þessum óblíðu slóðum en Fimmvörðuháls getur verið eitt mesta veðravíti á landinu þegar þannig stendur á. Skálinn er vel staðsettur á Fimmvörðuhálsi. Á síðustu árum hefur skálinn hinsvegar látið nokkuð á sjá undan veðri og óblíðum náttúruöflum enda geta sterkir vindar geisað á Fimmvörðuhálsi.

Efst á hálsinum er Fimmvörðuskáli sem Útivist rekur og segir Páll Guðmundsson,formaður FÍ að Ferðafélagið hafi sett sig í sambandi við Útivist og gert þeim grein fyrir áformum FÍ. "Góð aðkoma og bætt aðstaða í Baldvinsskála er mikilvæg öllum ferðamönnum og göngugörpum til aukinnar ánægju á leið þeirra um svæðið. Skálinn verður allur tekinn í gegn strax í vor. Það verður ekki rukkað fyrir gistingu heldur er frekar verið að huga að bættri aðstöðu ferðamanna á svæðinu og hann verður opinn allt árið um kring" segir Páll og segir að með þessu séu skálar Ferðafélagsins þá orðnir 37 talsins víða um land.

Vefur Ferðafélags Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert