Þarf ekki að greiða afnotagjald RÚV

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað konu af kröfu Ríkisútvarpsins um að hún greiði afnotagjald af sjónvarpi, samtals um 84 þúsund krónur, fyrir þriggja ára tímabil. Konan skildi við eiginmann sinn árið 2002 og taldi Ríkisútvarpið að hún hefði fengið sjónvarpstæki þeirra hjóna í sinn hlut.

Ríkisútvarpið lagði í stefnunni fram tölvupóst frá manninum þar sem hann greinir frá skilnaði þeirra hjóna og að hann hafi skilið sjónvörp og útvarpstæki eftir hjá konunni. Hafi hann því engin slík tæki og óskar eftir því að verða fjarlægður af afnotaskrá.

Konan hélt því hins vegar fram, að sjónvarpstæki á heimili þeirra hjónanna hafi ávalt verið skráð á hann og fylgt honum.

Niðurstaða dómsins er að RÚV hafi ekki lagt fram nein haldbær gögn, sem sýni með óyggjandi hætti að konan hafi eignast umrætt tæki. RÚV virðist byggja á tölvupóstsendingu fyrrverandi eiginmanns konunnar en maðurinn hafi ekki verið leiddur fyrir dóm og því bresti alla sönnun um greiðsluskyldu konunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert