Ákærður fyrir kynferðisbrot

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum á aldrinum fimm til 12 ára, vörslu á barnaklámi og umferðarlagabrot. Búið er að birta manninum ákæruna og verður hún þingfest eftir helgi.

Meint brot áttu sér stað í Vogahverfinu í Reykjavík í byrjun árs og hefur maðurinn verið í gæsluvarðhaldi síðan um miðjan janúar. Maðurinn er ákærður fyrir misalvarleg kynferðisbrot. Það alvarlegasta er gegn yngstu stúlkunni og varðar fyrstu málsgrein 202. greinar hegningarlaganna en þar segir að „hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.“

Hin brotin varða 209. grein laganna en samkvæmt henni skal sá sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis sæta allt að fjögurra ára fangelsi. Refsiramminn fyrir vörslu barnakláms er tvö ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert