Fólksfjölgun ekki meiri frá því um miðjan sjötta áratuginn

mbl.is/ÞÖK

Á árinu 2006 var fólksfjölgun á Íslandi með því mesta sem mælst hefur, samkvæmt því sem fram kemur í Hagtíðindum hagstofunnar. Þann 31. desember 2006 voru landsmenn 307.672 samanborið við 299.891 ári áður og jafngildir það því að íbúum hafi fjölgað um 2,6% á einu ári. Er það mjög mikil fjölgun bæði þegar litið er til annarra Evrópulanda og þróunar á Íslandi undanfarna áratugi.

Undanfarinn áratug hefur fólksfjölgun í álfunni í heild verið um 0,2% og í einungis örfáum löndum fjölgar íbúum um meira en 1% á ári. Þá hefur fólksfjölgun hér á landi ekki verið meiri síðan um miðjan sjötta áratug síðustu aldar.

Árið 2006 fjölgaði íbúum í öllum landshlutum á Íslandi nema á Vestfjörðum og á Norðurlandi en þar var fólksfjölgun lítil sem engin. Heldur hefur þó dregið úr fólksfækkun á Vestfjörðum en þar fækkaði íbúum um 1,2% á árinu 2006. Meðaltalsfækkun á svæðinu á árunum 2001–2006 var hins vegar 1,4% en næstu fimm árin þar á undan fækkaði Vestfirðingum um 1,9%.

Á höfuðborgarsvæðinu var fólksfjölgun á síðasta ári hins vegar heldur minni en landsmeðaltalið, 2,4% samanborið við 2,6% á landinu í heild. Fremur litlar breytingar hafa orðið á fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn áratug og var árleg meðalfjölgun áranna 2001–2006 1,5%. Á síðari hluta 10. áratugarins fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðis um 2,1%

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert