Símaskráin 2007 komin út

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já, afhendir Magnúsi Jóhannessyni, formanni Skógræktarfélags …
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já, afhendir Magnúsi Jóhannessyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, fyrsta eintakið af Símaskránni 2007.

Símaskráin 2007 er komin út og er nú í fyrsta sinn með norræna umhverfismerkinu Svaninum. Að þessu sinni er ennfremur bætt úr tvennu sem notendur skrárinnar hafa gert athugasemdir við á undanförnum árum: Símaskráin er nú um hálfu kílói léttari en venjulega, þrátt fyrir að vera 96 síðum lengri, og stækkunargler fylgir með skránni fyrir þá sem þykir letrið of smátt.

Forsíðuna prýðir myndverk eftir Kristin Gunnar Atlason, nema í grafískri hönnun og arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Þetta er í annað sinn sem Símaskráin er gefin út af Já.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og þeir einir fá að nota merkið sem uppfylla strangar kröfur um gæði og takmörkun umhverfisáhrifa. Já segir, að öll aðföng og framleiðsluaðferðir Símaskrárinnar séu umhverfisvæn og í því felist að pappírinn sem í hana er notaður komi úr sjálfbærum skógum og blekið og límið sé svo umhverfisvænt að óhætt sé að borða skrána þótt ekki sé mælt sérstaklega með því.

Já gerði nýverið samstarfssamning við Skógræktarfélag Íslands um að árlega verði gróðursettar 1.500 trjáplöntur á Ingunnarstöðum í Brynjudal. Með þessu móti vill Já á táknrænan hátt skapa mótvægi við þau 1500 tré sem felld eru vegna prentunar Símaskrárinnar á ári hverju og stuðla að sjálfbærum rekstri og skynsamlegri nýtingu skóga. Magnús Jóhannesson, formaður Skógræktarfélags Íslands, veitti af þessu tilefni viðtöku fyrsta eintaki Símaskrárinnar.

Já efndi til samkeppni meðal nemenda við Listaháskóla Íslands um gerð myndverks á forsíðu Símaskrárinnar 2007 undir yfirskriftinni umhverfisvernd. Alls bárust rúmlega 200 tillögur frá um 30 nemendum og var álit dómnefndar að Kristinn Gunnar Atlason, nemi í grafískri hönnun og arkitektúr, skyldi hljóta verðlaunin.

Símaskráin er nú prentuð í 230.000 eintaka upplagi og er 1584 blaðsíður. Hvert eintak vegur tæp 2 kg. Símaskránni er skipt upp eftir landshlutum, þar er að finna Gular síður, kort og ýmsar hagnýtar upplýsingar, auk leiðbeininga um almannavarnir o.fl. Símaskránni verður dreift í verslunum Símans, Vodafone og á afgreiðslustöðum Flytjanda um land allt. Auk þess verður hægt að nálgast skrána á bensínstöðvum um land allt fram til 30. júní. Hægt er að skila gömlu skránni um leið og sú nýja er sótt. Hin hefðbundna Símaskrá er afhent án gjalds en harðspjaldaútgáfan kostar kr. 650.

Ritstjóri Símaskrárinnar er Guðrún María Guðmundsdóttir og Stibo Graphic í Danmörku sá um prentun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert