Forsætisráðherra afhenti Norðmönnum Sverris sögu

Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti í dag, á þjóðhátíðardegi Norðmanna, fyrsta eintakið af nýrri útgáfu Sverris sögu sem er fyrsta bókin af fjórum í þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna í tilefni af 100 ára afmæli endurreists konungsveldis í Noregi árið 2005. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu.

Fyrir tveimur árum afhenti fyrrverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, gjafabréf frá íslensku þjóðinni þar sem kveðið var á um sérstaka útgáfu fjögurra Noregskonungasagna í fimm hundruð eintökum handa norskum lesendum. Þessar sögur eru Sverris saga, Morkinskinna, Böglunga saga og Hákonar saga Hákonarsonar. Ríkisstjórn Íslands samdi um útgáfuna við stjórn Hins íslenska fornritafélags undir forsæti dr. Jóhannesar Nordals.

Sverris saga er eitt af stórvirkjum fornbókmennta Íslendinga og elsta veraldlega konungasagan sem varðveist hefur. Sagan er samtímasaga og gleggsta heimild sem varðveist hefur um valdabaráttuna í Noregi á síðari hluta 12. aldar. Sverrir Sigurðsson var einn snjallasti konungur sem setið hefur á valdastóli í Noregi en hann átti sér marga fjandmenn innanlands, bæði meðal veraldlegra höfðingja og kirkjunnar manna. Í formálanum er nefnt nafn höfundar, Karls Jónssonar, ábóta á Þingeyrum í Húnaþingi sem ritaði upphaf sögunnar eftir fyrirsögn Sverris sjálfs. Sagan er örugglega að hluta málsvörn Sverris gagnvart andstæðingum sínum og sennilegt að Íslendingur hafi verið fenginn til verksins þar sem ekki væri hægt að saka hann um hlutdrægni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert