Amnesty: Vísvitandi alið á ótta í því skyni að grafa undan mannréttindum

Börn í Írak. Amnesty International segir að þar í landi …
Börn í Írak. Amnesty International segir að þar í landi hafi verið brotið gegn mannréttindum í stórum stíl.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja í nýrri ársskýrslu, að voldugar ríkisstjórnir og vopnaðir hópar magni vísvitandi upp ótta meðal fólks í því skyni að grafa undan mannréttindum og valda sundrungu manna á meðal. Þetta geri heiminn ótryggari fyrir alla íbúa hans.

Segja samtökin, að með því að ala á ótta og tortryggni grafi ríkisstjórnir undan lögfestu og mannréttindum, næri kynþáttahyggju og andúð á útlendingum, kljúfi samfélög, auki á misskiptingu og sái fræjum ofbeldis og átaka.

Stjórnmálamenn sem ali á ótta og fordómum beri ábyrgð á því að mannréttindi séu fótum troðin, réttur einstaklinga lítils eða einskis virtur og heimurinn viðsjárverðari öllum sem þar búa. Hið svonefnda stríð gegn hryðjuverkum og stríðið í Írak, þar sem brotið hafi verið gegn mannréttindum í stórum stíl, hafi valdið sundrungu meðal þjóða og þjóðarbrota og torveldað lausn deilumála og vernd almennra borgara.

Í ársskýrslunni segir, að alþjóðasamfélagið hafi á síðasta ári einkennst á síðasta ári af vantrausti og sundrungu. Þessi tortryggni hafi leitt til þess að ekki tókst að bregðast við neyðarástandi sem skapaðist í mannréttindamálum, svo sem í Tjétsníu, Kólumbíu og á Sri Lanka sem og í átökunum í Miðausturlöndum. Þannig hafi tekið Sameinuðu þjóðirnar margar vikur að taka við sér og krefjast þess að stríðandi fylkingar gerðu vopnahlé í átökunum í Líbanon, þar sem 1200 óbreyttir borgarar létu lífið.

Þá hafi alþjóðasamfélagið ekki haft þor til að bregðast við hörmulegum mannréttindabrotum í kjölfar alvarlegra takmarkana á ferðafrelsi Palestínumanna innan hernumdu svæðanna. Þá segir Amnesty, að Darfur í Súdan hafi verið og sé blæðandi sár á samvisku heimsins.

Samtökin segja að vopnaðir hópar ali á og nærist á ótta og ótryggu ástandi, allt frá landamærum Pakistans til Norðaustur-Afríku. Slíkir hópar hafi gerst sekir um fjöldamörg og alvarleg brot gegn mannréttinda- og mannúðarlögum. Ríkisstjórnir heims verði að axla ábyrgð sína og gera það sem í þeirra valdi standi til að koma í veg fyrir að vopnaðir hópar komist upp með að virða alþjóðlega viðurkennd mannréttindi og mannúðarlög að vettugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert