Minni fíkniefnaneysla barna og ungmenna í Reykjavík en í samanburðarborgum

Ný rannsókn á fíkniefnaneyslu ungmenna í níu Evrópuborgum sýnir að neyslan er minni í Reykjavík en í samanburðarborgunum. Rannsóknin sýnir auk þess að fíkniefnaneysla barna og ungmenna er minnst í þeim borgum Evrópu þar sem gripið hefur verið til markvissra forvarnaraðgerða á vettvangi sveitarfélaga með náinni samvinnu foreldra, skóla og grasrótarsamtaka.

Þetta kom fram á fundi á Bessastöðum, sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, efndi til í dag til að fylgja eftir Forvarnardeginum, sem haldinn var síðastliðið haust til að styrkja nauðsynlega forvarnarumræðu í landinu. Á fundinum var einnig fjallað um samstarf Evrópuborga í forvarnarmálum.

Tveir fræðimenn frá Háskólanum í Reykjavík, þau Inga Dóra Sigfúsdóttir og Álfgeir Kristjánsson, kynntu fyrstu niðurstöður hinna evrópsku rannsókna í forvörnum og þær niðurstöður sem Forvarnardagurinn á Íslandi hefði skilað.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir, að telja megi ljóst að markverður árangur hafi náðst í Reykjavík á undanförnum tíu árum, enda sæki nú aðrar borgir í reynslu Íslendinga og tali um íslensku fyrirmyndina. Samtök evrópskra borga gegn fíkniefnum standa nú að sérstöku verkefni í 15 borgum í Evrópu þar sem sambærilegum aðferðum er beitt og verður framkvæmdinni stýrt frá Reykjavík. Lyfjafyrirtækið Actavis er aðalstyrktaraðili þessa verkefnis og forseti Íslands verndari þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert