Tveir grunnskólar bjóða nemendum ókeypis máltíðir

Aðeins tveir skólar af 124 í 39 sveitarfélögum, sem könnun Neytendastofu náði til, bjóða nemendum sínum upp á ókeypis skólamáltíðir en það eru grunnskóli Skagastrandar og Stóru Vogaskóli í Vatnsleysustrandarhreppi. Í 38 skólum greiða nemendur eingöngu fyrir hráefni, í 79 skólum greiða þeir fyrir hráefni og hluta kostnaðar og í 4 skólum greiða nemendur allan kostnað.

Könnunin var gerð vegna þess, að Neytendastofu bárust fjölmargar verðlagsábendingar vegna sölu grunnskóla á mat til nemenda, aðallega um að verð í mötuneytum grunnskóla hafi ekki lækkað þrátt fyrir að virðisaukaskattur hafi lækkað á hráefni til mötuneyta.

Í þeim 38 skólum þar sem nemendur greiða eingöngu hráefni, er lægsta verðið 140 krónur og hæsta 417 krónur.

Í þeim 79 skólum þar sem nemendur greiða fyrir hráefni og hluta kostnaðar er lægsta verðið 185 krónur og það hæsta 341 króna.

Í 4 skólum í alls 2 sveitarfélögum greiða nemendur allan kostnað vegna matarkaupa í mötuneyti skólans og annast einkaaðilar alfarið þá þjónustu. Lægsta verð í þeim flokki var 338 krónur og hæsta verð 340 krónur.

Neytendastofa segir könnunina hafa leitt í ljós, að algengt sé að skilmálar í grunnskólum séu óljósir um kostnaðarskiptingu milli hráefnis og annars kostnaðar við skólamáltíðir. Beinir Neytendastofa þeim tilmælum til ábyrgðaraðila skólamötuneyta að hafa skýra skilmála um kostnaðarskiptingu og verðmyndun máltíða í skólamötuneytum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert