Spá því að þorskkvótinn verði ákveðinn 155 þúsund tonn

Þorskur í kassa.
Þorskur í kassa. AP

Greiningardeild Kaupþings spáir því, að farið verði bil beggja við ákvörðun þorskkvótans á næsta fiskveiðiári og kvótinn verði á milli þess sem aflaregla segir til um og þess sem Hafrannsóknastofnunin leggur til. Samdrátturinn verði því um 20% og að aflamarkið fari því úr 193 þúsund tonnum niður í 155 þúsund tonn.

Í ½5 fréttum segir, að þorskur og tengdur iðnaður séu um 13% af heildarútflutningi á vörum og þjónustu. Samkvæmt grófri áætlun megi ætla að hver 1000 tonn af þorski skapi um 244 milljónir í útflutningstekjur. Þar af leiðandi, ef farið yrði að ráðum Hafrannsóknarstofnunnar, myndi það þýða um 14,5 milljarða tap í útflutningsverðmæti, eða um 4% af heildarútflutningi Íslendinga. Verði aflamarkið ákveðið 155 þúsund tonn þýði það 9 milljarða samdrátt í útflutningi eða sem nemur um 2,6% af heildarútflutningi vöru og þjónustu. Áhrifin skiptast þó á milli áranna 2007 og 2008 þar sem kvótaárið nær frá byrjun september til loka ágúst. Áhrifin á þessu ári verði því tiltölulega lítil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert