Wilson Muuga á leið til Líbanons

Wilson Muuga lét úr höfn síðdegis en búið er að leggja mikla vinnu í að gera skipið sjófært. Tveir dráttarbátar lóðsuðu skipið úr höfninni í strekkingsvindi skömmu fyrir klukkan sex þegar haldið var í prufuferð. Fyrirhugað er síðan að sigla skipinu í framhaldi af því til Líbanons þar sem fullnaðarviðgerð á því fer fram en skipið er skráð í Kambódíu. Wilson Muuga strandaði við Hvalsnes 19. desember síðast liðinn en skipið náðist á flot í apríl.

Búið er að selja skipið til Líbanons þar sem gert verður við það. Undanfarnar vikur hefur hópur Sýrlendinga unnið að því að gera skipið klárt til siglingar suður í Svartahaf í samvinnu við innlenda aðila.

Sýrlendingarnir munu sigla skipinu út en áætlað er að siglingin taki 16-18 daga.

Guðmundur Ásgeirsson, stjórnarformaður Nesskips, sem gerði Wilson Muuga út, sagði nýlega við Morgunblaðið, að búið væri að vinna mikið í skipinu. Aðalvinnan hafi verið í vélarrúmi og eins hafi kafarar unnið að því að þétta betur göt á botni skipsins. „Það hafði gætt flóðs og fjöru í aðalvélinni í fjóra mánuði. Það var því margt skemmt þar. Það þurfti að taka upp alla rafmótora, þrífa þá, vinda upp á nýtt eða fá nýja mótora."

Wilson Muuga lét úr höfn í Hafnarfirði síðdegis.
Wilson Muuga lét úr höfn í Hafnarfirði síðdegis. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka