Stefnumótum í málefnum barna af erlendum uppruna samþykkt

Menntaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær stefnumótun í málefnum barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Tilgangurinn er að stuðla að enn betri aðlögun og virkni barna af erlendum uppruna í íslensku skólasamfélagi, að því er segir í fréttatilkynningu.

Stefnumótunin byggist á tillögum vinnuhóps sem skipaður var í desember sl. en hlutverk hans var að fjalla um stöðu barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur og gera tillögur um úrbætur. Í leikskólum í Efra-Breiðholti eru 28% barna af erlendum uppruna og í Austurbæjarskóla og Fellaskóla eru 23% nemenda af erlendum uppruna. Í ljósi þess telur menntaráð brýnt að mótuð sé skýr stefna í málefnum barna af erlendum uppruna, að því er segir í tilkynningu.

Lagt er til að teymi farkennara sem tala nokkur af algengustu tungumálunum verði sett á fót, aðstoð við heimanám verði aukin og að tungumálaver í Laugalækjarskóla verði nýtt enn frekar til að efla móðurmálskennslu. Móðurmálsnám verður metið sem valgrein frá og með skólaárinu 2008. Áhersla er á að námsefni verði gert með fjölmenningu í huga og að íslenskukunnátta barna af erlendum uppruna verði metin með markvissari hætti. Þá er lagt til að símenntun starfsfólks skóla taki mið af fjölmenningarlegu samfélagi Reykjavíkurborgar.

Lagt er til að allir grunnskólar Reykjavíkurborgar geri sér móttökuáætlun sem felur í sér skýrari verklagsreglur um innritun barna af erlendum uppruna. Lagt er til að fagráðgjöfum sem hafa sérþekkingu á málefnum innflytjenda verði fjölgað og að boðið verði upp á þjónustu túlka við innritun og á foreldrafundum. Þessar tillögur þýða að endurskoða þarf bækling Menntasviðs um innritun og móttöku erlendra barna frá árinu 2003 og gera kynningarefni um starfsemi grunnskóla Reykjavíkur á algengustu tungumálunum.

Foreldrafélög verða hvött til að taka þátt í gagnkvæmri aðlögun og stuðlað verður að því að koma á laggirnar vinafjölskyldum fyrir fjölskyldur barna af erlendum uppruna, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert