Tekjur 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðslur lífeyristrygginga

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Sverrir

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, lagði í gær fram frumvarp á Alþingi um að draga úr vægi viðmiðunartekna gagnvart greiðslum lífeyristrygginga. Er lagt til í frumvarpinu að atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðslur lífeyristrygginga. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa verði 560-700 milljónir króna.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að það sé flutt í samræmi við ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um bættan hag aldraðra og öryrkja. Með þessu frumvarpi sé verið að stíga eitt skref af mörgum í átt að þeim vilja ríkisstjórnarinnar, að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja að því er varðar bætur almannatrygginga.

Til viðbótar því sem felist í frumvarpinu segi í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins og að samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar.

Enn fremur segi í stefnuyfirlýsingunni að dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu, m.a. að skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verði afnumin og að skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu.

Þá segir að stefnt verði að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67 til 70 ára og að almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%. Að lokum segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóði. Verður frumvörp um þetta lagt fram á haustþingi 2007.

Frumvarp heilbrigðisráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert