Landhelgisgæslan veitir ísklifrurum aðstoð á Grænlandi

TF- LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, að störfum.
TF- LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, að störfum. mbl.is/Jónas Erlendsson

Óttast var um afdrif hóps kvenna sem var við ísklifursæfingar á Grænlandi nú um helgina. Samkvæmt óljósum fyrstu fregnum var álitið að Twinn Otter, flugvél í eigu Flugfélags Íslands, sem flutti stúlkurnar væri biluð. Var áhöfn TF-LÍF kölluð út og fann hún stúlkurnar heilar á húfi á Grænlandi en flugvélin hafði lent í erfiðleikum. Tókst að gera við flugvélina og er hún komin til Íslands, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Twin Otter vélin hefur verið í flutningum með fólk til ýmissa staða á Grænlandi síðustu vikurnar, stjórnað frá Akureyri með lendingum á Ísafirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Haft var samband við Vaktstöð siglinga og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar frá Sjóbjörgunarstöð bresku strandgæslunnar í Clyde Skotlandi og jafnframt höfðu þeir samband við sjóbjörgunarmiðstöðina í Grönnedal á Grænlandi.

Erindið var að koma á framfæri áhyggjum vegna hóps kvenna sem hefur verið við ísklifursæfingar á Grænlandi undanfarið.

„Áhyggjufullur vinur stúlknanna í Bretlandi lét vita til Clyde MRCC í Skotlandi sem hafði samband við Vaktsöð siglinga og stjórnstöð LHG og Grönnedal á Grænlandi. Samkvæmt óljósum fyrstu fregnum var álitið að Twinn Otter flugvél í eigu Flugfélags Íslands væri biluð. En Twin Otter vélin hefur verið í flutningum með fólk til ýmissa staða á Grænlandi síðustu vikurnar, stjórnað frá Akureyri með lendingum á Ísafirði. Fluttir hafa verið nokkrir hópar til Grænlands og til baka undir umsjón Flugfélags Íslands undanfarnar vikur. Að sögn Friðriks Adólfssonar hjá Flugfélagi Íslands hafa ferðirnar gengið all vel fram til þessa.

Twin Otter flugvélin sem um ræðir í þessu tilfelli, féll skyndilega niður um þunnt yfirborðslag íss á jöklinum með þeim afleiðingum að ekki náðist að rétta hana við. En vélin hafði verið að troða og herða snjóflugsbraut til að fara á loft aftur, þegar óhappið varð. Undir þunnri ísskelinni virtist því vera einskonar púðursnjór sem nefskíði vélarinnar sökk í.

Friðrik hafði samband við björgunaraðila á Grænlandi og leitaði eftir aðstoð en við nánari athugun, var talið auðveldast að biðja LHG um aðstoð eins og málin stóðu.

Um kl. 15:00 var ákveðið kalla út áhöfn þyrlu til fararinnar. Þyrlan TF-LÍF lagði síðan af stað um kl. 18:03 , eftir talsverðan undirbúning. Flugið yfir til Grænlands gekk vel og lenti þyrlan á ísnum hjá Twin Otter flugvélinni um kl. 20:00, eftir að hafa komið stutta stund við á Ísafirði.

Tveir flugvirkjar frá Flugfélagi Íslands ásamt flugstjóra voru skildir eftir við Twin Otter vélina. Var áætlað að einhvern tíma myndi taka að koma vélinni í loftið aftur. Á meðan fór þyrlan og sótti konurnar að tjaldbúðum þeirra sem var álitið að væri í námunda við Borge Tinde. Eftir svolitla leit fann þyrlan hóp kvennanna og var síðan flogið til Constable Point í um 160 mílna fjarlægð til að taka eldsneyti á þyrluna því lauk um kl. 22:15 en einnig var vélin yfirlitin af flugvirkja og áhöfn LHG.

Frá Constable Point var haldið um kl. 00:15 í dag 10-06-07. Á leiðinni var nokkur mótvindur og sóttist flugið ekki eins vel og vonir stóðu til. Taka eldsneytisbirgða var því nauðsynleg. Þyrlan TF-LÍF lenti svo heilu og höldnu á Ísafirði kl. 02:58 og lauk þar með giftusamlegri aðstoð og aðgerð á Grænlandsjökli. Twinn Otter flugvélin komst í loftið um kl. 06:30 í morgun og er væntanleg til Ísafjarðar um 09:00 með farþega," að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert