Ísland auglýst á strætó í Peking

Ásbyrgi
Ásbyrgi mbl.is/Brynjar Gauti

Auglýsingar og ljósmyndir um ferðamannalandið Ísland munu síðar í mánuðinum þekja tveggja hæða almenningsvagn í Peking í Kína. Ísland tekur einnig þátt í keppni þar sem kínverskir sjónvarpsáhorfendur greiða atkvæði um fallegasta stað Evrópu.

Í vefriti utanríkisráðuneytisins Stiklur kemur fram að sendiráð Íslands í Kína tekur í ár þátt í verkefni samtaka aðila í ferðaþjónustu og samtaka sjónvarpsstöðva, þar sem sjónvarpsáhorfendur í Kína greiða atkvæði um fallegasta stað í Evrópu.

Myndefni frá þátttakendum verður sýnt í yfir 100 kínverskum sjónvarpsstöðum næstu mánuði í sérstökum ferðaþáttum. Áhorfendur munu greiða atkvæði með því að hringja inn til stöðvanna. Ráðgert er að keppninni ljúki í byrjun árs 2008.

Ljósmyndir og auglýsingar um ferðamannalandið Ísland munu síðar í mánuðinum þekja tveggja hæða almenningsvagn í Peking. Sendiráðið komst nýverið að samkomulagi við fjölmiðlafyrirtækið Viavom Outdoor Ltd. um að fyrirtækið færði vagninn í íslenskan búning í tengslum við ferðakaupstefnuna Beijing International Tourism Expo (BITE), sem haldin verður dagana 21. til 23. júní n.k. Vagninn mun þjónusta sýningarsvæðið sem er gríðarlega stórt, en BITE er ein stærsta ferðakaupstefnan í Kína og sótt af þúsundum manna, bæði fagfólki úr ferðaþjónustu og almenningi, að því er segir í Stiklum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka