Æla, notaðir smokkar og rotnandi matarleifar tóku á móti gestum

Ógeðfelld aðkoma var að orlofshúsi VR á dögunum eftir að ungur félagsmaður hafði haft húsið til afnota. Bjór- og vínflöskur lágu um allt hús, rotnandi matarleifar voru á borðum og vaskar fullir af drasli. Ekki var ástandið betra utandyra, þar sem notaðir smokkar héngu í trjágreinum og ælt hafði verið yfir vindsæng sem lá þar enn, samkvæmt upplýsingum af heimasíðu VR. Líklega hafa gestirnir ekki kunnað við sig þegar gamanið var búið og því ákveðið að leyfa einhverjum öðrum að þrífa eftir sig.

Þórunn Jónsdóttir hefur yfirumsjón með orlofshúsum VR. Hún segir gróf tilfelli sem þetta undantekningar, en þó hafi svona lagað aukist mikið á síðustu misserum. Nú er svo komið að tillaga liggur fyrir hjá stjórn VR um að setja 20 ára aldurstakmark á félagsmenn sem vilja leigja orlofshús. Þórunn segir að helst komi svona lagað upp þegar ungt fólk á í hlut, annaðhvort félagsmenn eða börn félagsmanna. Hún segir fólk yfirleitt vita upp á sig sökina en það komi jafnvel fyrir að það neiti öllu. "Víst þreif ég," sagði einn félagsmanna við hana í síma og skellti svo á.

"Þetta er einhver firring sem er erfitt að átta sig á," segir Þórunn. "Það þarf að hrista upp í fólki og vekja það til umhugsunar. Við þurfum að breyta þessu."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert