Sumarhátíð og alþjóðaleikar í Laugardal

Alþjóðaleikar ungmenna voru formlega settir í Laugardalnum í dag. Tæplega þúsund ungmenni á aldrinum 12 til 15 ára munu keppa í sjö íþróttagreinum - frjálsum, sundi, fótbolta, handbolta, júdó, badminton og golfi. Bætast þau í hóp þeirra 27.000 ungmenna frá 200 borgum í 50 löndum, sem tekið hafa þátt í leikunum frá því að þeir voru haldnir fyrst árið 1968.

Áður en setningarhátíðin hófst í Laugardalshöll hittist íþróttafólkið, sem í ár eru frá 64 borgum í samtals þrjátíu löndum, á sumarhátíð Vinnuskólans í Reykjavík við gömlu þvottalaugarnar í Laugardal. Við laugarnar voru þá samtals komin þrjú þúsund ungmenni í íslenskri sumarblíðu.

Markmið Alþjóðaleika ungmenna er að greiða fyrir og þróa skilning og vináttu milli skólabarna frá ólíkum löndum, og að kenna þeim þá hugmyndafræði sem ólympíuleikarnir byggja á. Verndari leikanna er fótboltamaðurinn vinsæli Eiður Smári Guðjohnsen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert