Eimskip krefjast meira fyrir aukaferðir Herjólfs

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur. mbl.is/Eggert

Boltinn er hjá Vegagerðinni, segir rekstrarstjóri Herjólfs hjá Eimskipum. Gerð var áætlun um kostnað á aukaferðum, sem skilað var inn í síðustu viku. Áætlunin hljóðaði upp á hærri upphæð heldur en þær 30 milljónir sem búið var að lofa. Aðstoðarmaður samgönguráðherra segir ráðherrann hafa fundað með vegamálstjóra í morgun. Ákveðið var að vegamálastjóri gengi á ný til samninga við Eimskip.

„Málið er á því stigi að við höfum ekkert heyrt í Vegagerðinni síðan í síðustu viku,“ segir Guðmundur Petersen, rekstrarstjóri Herjólfs hjá Eimskipum. „Við vorum beðin um að gera áætlun um kostnað við aukaferðir í sumar og við skiluðum þeirri áætlun inn í síðustu viku.“

Guðmundur segir áætlunina hafa gert ráð fyrir hærri upphæð en þær 30 milljónir, sem ríkisstjórnarsáttmáli hljóðar upp á. Hann bíði nú eftir svari frá vegamálastjóra, sem bíði eftir heimild frá samgönguráðuneytinu.

Eimskip fær greiddar 400.000 krónur fyrir hverja ferð ferjunnar til Vestmannaeyja, en í samningi Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að fyrirtækið fái greiddar 600.000 krónur fyrir aukaferðir.

Aðstoðarmaður samgönguráðherra, Róbert Marshall, segir ráðherra hafa fundað með vegamálstjóra í morgun. Niðurstaða fundarins var sú að vegamálastjóri færi aftur að samningaborðinu með forsvarsmönnum Eimskipa og fái niðurstöðu í málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert