Talið að tugur ólöglegra innflytjenda hafi farist á Miðjarðarhafi

Eyborg.
Eyborg.

Talið er að rúmur tugur ólögregla innflytjenda hafi farist á Miðjarðarhafi þegar báti þeirra hvolfdi í vondu veðri í vikunni. 21 félaga þeirra tókst að komast í flotkvíar, sem togarinn Eyborg var með í eftirdragi í nágrenninu. Möltuher vildi, að Eyborg sigldi með flóttamennina þangað en því neitaði útgerð skipsins.

Að sögn fjölmiðla á Möltu eru flóttamennirnir frá Erítreu, Eþíópíu, Nígeríu og Sómalíu og er verið að flytja fólkið með varðbáti til Möltu. 21 árs gömul kona lést eftir að fólkið komst í kvíarnar sem Eyborg dró.

Að sögn fréttastofunnar DPA á Möltu kröfðust stjórnendur Möltuhers þess upphaflega, að Eyborg sigldi með flóttamennina til Líbýu þar sem togarinn var á björgunarsvæði Líbýu þegar flóttamennirnir gerðu vart við sig. Líbýustjórn tilkynnti, að Eyborg gæti komið með flóttamennina til hafnarborgarinnar Misurata. Þessu neituðu stjórnendur Eyborgar og var ákveðið að sigla í áttina til Möltu.

Fréttavefur blaðsins The Times of Malta hefur eftir talsmanni Möltuhers, að skipstjóra Eyborgar hafi verið skylt að flytja flóttamennina til Líbýu fyrst þeir voru á björgunarsvæði þess lands. Hafi skipstjóranum verið gerð grein fyrir alþjóðlegum skyldum sínum og hann gæti átt yfir höfði sér ákæru um alþjóðlegt mansal flytti hann flóttamennina til Möltu.

Fjölmiðlarnir segja, að eftir samskipti stjórnvalda á Íslandi og Möltu og sendiráðs Möltu í Líbýu hafi Möltuher ákveðið að senda varðbát til móts við Eyborgu og taka við flóttamönnunum. Sagði herinn í yfirlýsingu, að þetta hefði verið gert af mannúðarástæðum.

Eyborgin er skráð í Litháen og hefur verið í ýmsum verkefnum á Miðjarðarhafinu undanfarin tvö ár. Hún hafði að þessu sinni verið send að landhelgi Líbýu til að aðstoða skip við að draga flotkvíar sem notaðar eru við túnfiskveiðar. Hitt skipið var of kraftlítið til að draga kvíarnar sem eru grindarbúr sem mara hálf í kafi. Níu manna áhöfn er um borð en einungis skipsstjórinn er íslenskur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert