Umsóknir um mengunarkvóta 30% umfram það sem er til úthlutunar

Á fundi iðnaðarnefndar Alþingis í dag kom fram, að umsóknir um heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda séu tæplega 30% umfram það sem til úthlutunar er samkvæmt skuldbindingum Íslands í Kýótó-bókuninni svonefndu. Jafnframt kom fram að iðnaðar- og umhverfisráðuneytin eiga allt eins von á enn frekari umsóknum um slíkar heimildir.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs óskaði eftir fundi í umhverfis- og iðnaðarnefndum Alþingis vegna frétta af áformum stóriðjufyrirtækja um stóraukna uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi. Var sameiginlegur fundur nefndanna haldinn í morgun og til hans boðaðir fulltrúar iðnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Samorku og verkefnisstjórnar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Í tilkynningu VG segir, að á fundinum hafi komið fram, að ásókn stóriðjufyrirtækja í orkuauðlindir landsmanna sé vaxandi og meiri en nokkurn hafi órað fyrir. Einnig sé það tilviljunum háð hvaða vitneskju iðnaðarráðuneytið hafi um áform einstakra fyrirtækja, eftir breytingar á stjórnsýslu málaflokksins. Það sé nú í auknum mæli á valdi orkufyrirtækjanna, einstakra sveitarfélaga og landeigenda að taka ákvarðanir þar að lútandi.

„Það er mat fulltrúa VG í umhverfis- og iðnaðarnefndum Alþingis að ásókn stóriðjufyrirtækja í orkuauðlindir þjóðarinnar krefjist tafarlausrar stefnumörkunar og virkrar stýringar af hálfu stjórnvalda. Ekki sé forsvaranlegt að varpa ábyrgðinni af þaulnýtingu dýrmætra háhitasvæða eða byggingu frekari stíflumannvirkja eða uppistöðulóna á herðar „fyrirtækja á markaði“ eins og umhverfisráðherra hefur orðað það í fjölmiðlum. Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin taki ákvörðun um að staðið verði við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands skv. loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og að veitt verði svigrúm til þess að ljúka rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma áður en nokkrar heimildir verða veittar til frekari uppbyggingar orkufreks iðnaðar. Að öðrum kosti blasir við að engin stefnubreyting hafi orðið með nýrri ríkisstjórn og að stóriðju- og orkufyrirtækjum sé gefinn ótakmarkaður aðgangur að náttúruauðlindum þjóðarinnar. Skorað er á ráðherra iðnaðar- og umhverfismála að gera kunna stefnu ríkisstjórnarinnar hið fyrsta," segir í tilkynningu þingmanna VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert