„Eigum ekki að sætta okkur við þetta“

Eftir Evu Bjarnadóttur evab@mbl.is

Ölvun og lyfjanotkun voru áberandi orsakaþættir í banaslysum síðasta árs. „Við eigum ekki að sætta okkur við þetta,“ segir forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðaslysa. Nýlega tóku í gildi lög sem hertu refsingar við umferðalagabrotum, en 11 af 28 banaslysum í umferðinni á síðasta ári mátti rekja til áfengis- eða lyfjanotkunar.

Aðspurður um hvernig koma megi í veg fyrir fjölgun banaslysa í umferðinni segir Ágúst Mogensen, forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðaslysa, aðgerðir lögreglu vera áhrifaríkar og eins vonar hann að almenningsálitið hafi áhrif líka.

„Nýlega tóku gildi lög sem herða refsingar við umferðalagabrotum svo sem hraðakstri og notkun lyfja undir stýri,“ segir Ágúst. „Það hefur ítrekað sýnt sig í rannsóknum erlendis að strangar reglur og háar sektir skila árangri, þótt fólki þyki það kannski leiðinlegt,“ bætir hann við.

Á heimasíðu rannsóknarnefndarinnar má lesa 28 skýrslur nefndarinnar um banaslys síðasta árs. Í þeim er orsökum slysanna lýst og atburðarásin rakin ítarlega. Ágúst nefndina birta skýrslurnar opinberlega svo þær sé hægt að nota til fræðslu.

„Okkur í nefndinni hefur þótt skorta töluvert á skilning almennings á afleiðingum umferðaslysa. Vonandi stendur það til bóta með aukinni fræðslu á komandi árum,“ segir forstöðumaðurinn að lokum.

Rannsóknarnefnd umferðaslysa

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert