24 tindar sigraðir á 24 tímum

Ragnar Sverrisson
Ragnar Sverrisson

Að morgni nk. laugardags kl. 8.00 verður lagt í mikla fjallgöngu frá Skíðahótelinu í Hlíðarfjalli. Þá verða 24 hæstu fjöllin í Glerárdal klifin, en þetta er í þriðja skiptið sem slík ganga er farin. Ragnar Sverrisson, kaupmaður á Akureyri, er einn þeirra sem standa fyrir uppátækinu:

"Þegar við fórum þetta fyrst fóru 17 manns allan hringinn en 40 manns tóku þátt í göngunni. Nú hafa um 70 manns skráð sig og við reiknum með að um 50 manns fari allan hringinn, þannig að þetta er farið að vinda upp á sig.

Fólk þarf ekki að fara alla leið, það er hægt að láta sig detta út eftir fimm eða tíu fjöll eða álíka. Að auki skiptum við þessu í þrjú stig eða þrjá hópa, þá sem fara hraðast, millistig og hægast. Fólk getur valið hvað hentar því best."

Hugmyndin er komin frá Þorvaldi Þórssyni, "hátindahöfðingja" eins og Ragnar kallar hann, sem gekk hringinn fyrstur og sagði Ragnari síðar frá því. "Ég tók það í mig að gera þetta að árlegum viðburði og fékk Sigvalda Óskar Jónsson og Friðfinn Gísla Skúlason til að koma þessu af stað.

Það er nauðsynlegt fyrir fólk að vera í góðri þjálfun og nokkuð vant göngu, auk þess sem hafa þarf mikið og orkuríkt nesti og rétt hugarfar; höfuðið verður að vera í lagi, fólk þarf að hafa trú á að það geti þetta."

Aðspurður segist Ragnar ekki búast við strengjum eftir gönguna. "En ég reikna með að verða lúinn í lærunum," bætir hann við og hlær.

Í hnotskurn
» Þetta er þriðja árið sem gangan er farin. 11 af tindunum 24 sem klifnir verða eru yfir 1.400 metra háir.
» Gangan er skipulögð í samstarfi við Björgunarsveitina Súlur og Skátafélagið Klakk sem mun taka á móti göngumönnunum á leiðarenda.
» Allar nánari upplýsingar fyrir áhugasama eru fáanlegar á www.glerardalur.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert